140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:19]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður hélt fagra ræðu og taldi að það væri fráleitt annað en taka þetta mál fyrir hér í þinginu og ræða það efnislega. Það eru fern rök sem færð eru fyrir þessu í tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Þau eru um kostnað, og ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. Árni Páll Árnason fallist á þau rök. Þau eru um einn mann en ekki fjóra, og hv. þm. Árni Páll Árnason hefur hafnað þeim. Þau eru um að hrunið sé „svokallað“ og ekki þeim að kenna sem hér voru við stjórn, og ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. Árni Páll Árnason fallist á þau rök sem málsástæður fyrir því að taka það á ný til umræðu. Og síðan þau að tveir ákæruliðir hafa verið felldir niður, en þá standa sum sé sex eftir, og um einn þeirra efast hv. þm. Árni Páll Árnason að eigi sér stað.

Þá stendur eftir sumsé að einu rökin sem ég hef heyrt frá hinum ágæta þingmanni Árna Páli Árnasyni eru þau að hér hafi komið menn, sem ég geri ráð fyrir að séu hv. þm. Atli Gíslason, Sigurður Ingi Jóhannsson og einhverjir í viðbót sem ég man ekki að nefna í bili, og sagt að þeir hafi gert mistök á sínum tíma. Þeir hafa líka haldið því fram að forseti Alþingis hafi gert mistök á sínum tíma.

Eru þau mistök ástæðan fyrir því að við eigum að framlengja hér mál sem er beint inngrip í dómsvaldið? Hvort sem það er lögfræðilega leyfilegt eða ekki eru þau það, þau stöðva landsdóminn, þau setja saksóknara Alþingis í mjög erfiða stöðu — að þetta sé forsenda fyrir því þegar hvorki landsdómur, saksóknari Alþingis né einu sinni saksóknarnefndin hefur kallað eftir neins konar breytingum á málatilbúnaði af þingsins hálfu.