140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að eftir 1994 hefði þessum styrkjum verið komið á fót. Ég spyr því enn og aftur hvort það geti verið vegna þess að Norðmenn felldu sinn samning og þar af leiðandi þurfti að breyta kerfinu til þess að ríki mundu ekki fara aftur í að fella samning sem væri kominn nokkuð langt.

Þeir styrkir sem um er að ræða eru vitanlega ætlaðir til þess að byggja hér upp og auka trú á að Evrópusambandið sé komið til að vera og komið til þess að laga hér allt sem hægt er að laga á þessu blessaða landi okkar. Það er ekki eðlilegt. Það getur ekki verið eðlilegt að við tökum við fjármunum frá ríki sem við erum að semja við. Við erum væntanlega að semja við þessi ríkjasambönd eða hvað á eiginlega að kalla þetta fyrirbæri. Og þau koma með peninga til okkar. Það er miklu eðlilegra að allar breytingar sem þurfa að verða ef af samningi verður komi eftir á (Forseti hringir.) og þá peningarnir. Þetta eru ekkert annað en glerperlur og eldvatn sem er verið að bera hérna fram.