140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:21]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil aðeins koma inn í umræðu um þessa tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um þær reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsókn að ríki Evrópusambandsins, þ.e. hina svokölluðu IPA-styrki.

Ég vil líka koma inn á stefnu flokks míns, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í þessu máli, og vitna þar til landsfundarályktunar flokksins frá því í lok október sl.

Eins og kemur skýrt fram í titli tillögunnar er hér um að ræða fjárhagsaðstoð Evrópusambandsins við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sem fjármagnar aðstoð við umsóknarríki. Það kemur skýrt fram að þetta fjármagn er aðeins til ráðstöfunar sem fjárhagsaðstoð við þau ríki sem hafa sótt um aðild og eru í umsóknar- eða aðildarferli. Það er mikilvægt að menn átti sig á því þetta er ekki gagnkvæmt styrkjakerfi sem slíkt, þetta er fjárhagsaðstoð til meintra ákveðinna aðgerða til að ná fram ákveðinni niðurstöðu.

Þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu með þeim nauma meiri hluta sem við minnumst lýstu margir þingmenn sem greiddu atkvæði með aðildarumsókninni jafnframt andstöðu sinni við inngöngu í Evrópusambandið og sögðust ekki mundu styðja þann samning, hver svo sem hann yrði en að þetta umsóknar- og aðildarferli yrði að fara í gang. Ég var því andvígur eins og hv. þingmenn muna, að leggja upp í vegferð sem menn væru fyrir fram andvígir og þannig ætti ekki að vinna og setja upp einhvern sýndarveruleika eða blekkingaleik í þeim efnum.

Það var líka hluti af samstarfi á milli ríkisstjórnarflokkanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar að þrátt fyrir að þessi umsókn væri send af hálfu Alþingis væri ljóst að grundvallarmunur væri á milli afstöðu flokkanna hvað aðildarumsókn og aðild að Evrópusambandinu varðaði. Engu að síður skyldi unnið í samræmi við þingsályktunartillöguna, þ.e. þangað til að Alþingi ákvæði annað og setti málið í annan farveg. Jafnframt hefði hver og einn rétt til að halda fram sjónarmiðum sínum, baráttumálum og stefnumálum í þessum efnum. Þetta var alveg skýrt og hefur verið margítrekað.

Einnig er mikilvægt að halda til haga þeim yfirlýsingum að ekki verði breytt neinu í íslenskri stjórnsýslu, laga- eða reglugerðarmálum, stofnanagerðum eða í undirbúningi sem gæti haft framtíðarafleiðingar á umsóknartímanum. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga og þetta hafa allir undirstrikað sem hafa um málið fjallað.

Þess vegna er það mat mitt og þar styðst ég einnig við ályktanir og stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þessir IPA-styrkir, aðlögunarstyrkir sem beinlínis eru til þess gerðir að hjálpa ríkjum, eru fjárhagsaðstoð til ríkja sem hafa sótt um aðild til að uppfylla kröfur sambandsins um innra skipulag, stofnanauppbyggingu og annað því um líkt sem þau þurfa að uppfylla til að hægt sé að ljúka í raun samningaferlinu á milli Evrópusambandsins og viðkomandi ríkis. Eins og fram hefur komið hjá hæstv. utanríkisráðherra er þetta ákaflega fallega boðið fyrir þá sem vilja taka við fjárhagsgjöfum, sumir kalla það mútur, en af hálfu Evrópusambandsins er þetta hreinlega gert til að hjálpa ríkinu og gert í því ljósi að mörg ríki sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu og vilja komast þar inn hafa verið þannig stödd að þau hafa ekki getað uppfyllt þessi skilyrði og þess vegna hefur þurft að leggja til slíka fjárhagsaðstoð.

En við erum ekki að sækja um aðild til að komast inn. Aðeins einn stjórnmálaflokkur, sem reyndar á aðild að ríkisstjórn, hefur sagt það mjög heiðarlega að hann sé að sækja um til að komast inn og sé reiðubúinn til að tryggja fjármagn og annað því um líkt í þeim efnum til að komast inn. Ekki hefur verið nein launung á því af þeirra hálfu og ég virði það þegar fólk kemur heiðarlega fram þótt ég sé fullkomlega ósammála þessari afstöðu.

Einn af hornsteinunum í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar hún var stofnuð var að hún væri andvíg aðild að Evrópusambandinu og vildi ekki ganga í Evrópusambandið heldur aðeins eiga eðlilega viðskiptasamninga við það, eins og við höfum reyndar gert. Þetta er áréttað í samþykkt frá landsfundi sem haldinn var 28.–30. október 2011 sem ég leyfi mér að lesa úr, frú forseti, um aðildarviðræður að Evrópusambandinu:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Landsfundurinn ályktar að í yfirstandandi aðildarviðræðum beri að hafna því að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu og leggur áherslu á að Ísland haldi samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum, svo sem makríls, kolmunna, úthafskarfa, loðnu og norsk-íslensku síldarinnar. Sama á við hvað varðar umfang á stuðningi við íslenskan landbúnað svo og um náttúruauðlindir sem fyrirhugað er að lýsa þjóðareign í nýrri stjórnarskrá.

Landsfundurinn bendir á þá miklu skerðingu lýðræðis sem felst í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum. Þróun innan ESB að undanförnu, nú síðast vegna átaka um framtíð evrusamstarfsins, stefnir í átt að enn frekari samruna með hertri miðstýringu. Með Lissabon-sáttmálanum er einnig kominn vísir að samstarfi um utanríkis- og hernaðarmálefni. Jafnframt eiga félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðu- og matvælaöryggi og réttindi launafólks undir högg að sækja innan sambandsins. Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur.

Landsfundurinn telur það vera eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar.“

Í þessari umræðu var einnig rætt um þessa aðlögunarstyrki eða IPA-styrki. Það kom fram í orðum framsögumanns sem mælti fyrir þessari samþykkt af hálfu þess hóps sem hana vann, að það væri litið svo á það væri hluti af því að hafna aðlögun að hafna þessum IPA-styrkjum eða aðlögunarstyrkjum. (Utanrrh.: Ekki að öllu leyti.) Jú. Þó að óskhyggja hæstv. utanríkisráðherra sé mikil í þessum efnum (Gripið fram í: Rétt.) og ég virði ákafa hans til að snúa og hafa áhrif á meira að segja suma af mínum góðu flokksfélögum og ég virði áhuga hans í að beina þeim af réttri braut, þá veit ég hvað ég er að tala um.

Þetta er líka áréttað í flokksráðssamþykkt frá 20. nóvember 2010 sem ég leyfi mér að vitna til. Henni lýkur þannig: „Ekki verði tekið við styrkjum sem beinlínis eiga að undirbúa aðild.“ Þannig er líka kveðið á um þetta í þeirri ályktun. Menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um tilgang þessarar þingsályktunartillögu þegar þeir lesa fyrirskrift hennar þannig að ég lýsi því að ég tel að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé andvíg því að taka á móti styrkjum af þessu tagi. Ég hef sett fyrirvara við þetta, bæði í ríkisstjórn og í þingflokki. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra gerði grein fyrir þeim fyrirvörum sem komu úr þingflokki Vinstri grænna við framsöguna, það hefði verið eðlilegt að hann hefði fengið þá, en bókaðir voru fyrirvarar við stuðning við þessa tillögu.

Frú forseti. Mér þykir rétt að halda rækilega til haga stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli.