140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er komin í ræðustól til að leiðrétta hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson en hann fullyrti áðan að andstætt mér hefði hann verið hlynntur komu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til landsins haustið 2008. Það er reyndar til skjalfest í upptökum á þætti Sigurjóns M. Egilssonar að ég sagði að ég teldi að við þyrftum á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að halda.

Við þurfum að gera greinarmun á hvers konar aðstoð við viljum fá frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég taldi að á þeim tíma þyrftum við aðstoð við að koma á greiðslusamskiptum við erlendar þjóðir. Í nóvember 2008 var varla hægt að nota krítarkort erlendis sem voru í eigu Íslendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur það hlutverk m.a. að tryggja frjálst flæði fjármagns.

Annað sem ég vildi fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að aðstoða okkur við haustið 2008 var einmitt að ná utan um skuldir ríkissjóðs. Hér var ekki vitað hversu miklar skuldirnar væru, það tók reyndar rúmt ár að kortleggja það og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sérfræðiþekkingu á því sviði.

Frú forseti. Ég kom líka í ræðustól til þess að spyrja hv. þingmann hvers vegna hann telji að fara hefði þurft hægar í niðurskurðinn á ríkisútgjöldum, eða með öðrum orðum: Hver er að mati hv. þingmanns rót vandans sem við er að etja og hvernig á að bregðast við efnahagsvandanum?