140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég hef reyndar verulegar áhyggjur af því hversu rík afneitun er enn til staðar hjá hæstv. forsætisráðherra varðandi stöðu heimilanna þegar hæstv. forsætisráðherra segir að tölur Hagstofunnar um erfiða stöðu heimilanna séu fyrir árið 2010 og að þá hafi allt verið svo erfitt en nú sé allt orðið svo miklu betra. Eins og bent hefur verið á hefur ástandið síst batnað frá þeim tíma hvað stöðu heimilanna varðar.

Að hæstv. forsætisráðherra skuli telja það fráleitt að ekki sé komið á nokkurn hátt til móts við það fólk sem reynir að standa í skilum, borga af lánunum sínum, átti jafnvel eitthvert eigið fé í húsnæði sínu, er í rauninni stórhættulegt vegna þess að það gefur okkur til kynna að áfram verði haldið á sömu braut, að ríkisstjórnin muni eingöngu setja fram neikvæða hvata, það verði ekkert gert fyrir þá sem telja sig eiga möguleika á að standa í skilum og standa undir lánunum sínum en einungis verði komið til móts við þá sem komast algjörlega í þrot. Það er mjög hættuleg stefna við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Ef hæstv. forsætisráðherra er sannfærður um að niðurstaða skýrslu Hagfræðistofnunar sé rétt, þó að Hagfræðistofnun hafi ekki haft aðgang að grunngögnum málsins, er sú skýrsla gífurlegur áfellisdómur yfir stefnu þessarar ríkisstjórnar. Þá er hún staðfesting á því að ríkisstjórnin hafi hent hundruðum milljarða króna út um gluggann þegar nýju bankarnir voru stofnaðir og ekki tekið tillit til hættunnar á að gengisbundin lán yrðu dæmd ólögmæt, eins og búið var að benda á áður en nýju bankarnir voru stofnaðir. Jafnframt er skýrslan þá staðfesting á því að menn hafi alls ekki haft efni á samningnum sem hæstv. forsætisráðherra reyndi að koma í gegn varðandi Icesave því að kostnaðurinn af honum hefði verið miklu meiri en sá kostnaður sem félli til ef menn réðust í leiðréttingu lána. Sé skýrsla Hagfræðistofnunar rétt er hún mesti áfellisdómur sem þessi ríkisstjórn hefur fengið.