140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni vegna þess að mín skoðun er sú að vörugjaldakerfið þarfnist verulegrar endurskoðunar. Álagning innan þess byggist í mörgum tilvikum á afar veikum og handahófskenndum grunni.

Það er mikilvægt að skattkerfið sé einfalt, hlutlaust, gagnsætt og skilvirkt, enda er sá háttur til þess fallinn að stuðla að heilbrigðri samkeppni og bæta verðskyn neytenda.

Margt er skrýtið í vörugjaldaheimi. Til dæmis hefur verið bent á það að brauðristar bera ekki vörugjald en samlokugrill bera 20% vörugjald. Það skiptir sem sagt máli hvort brauðið sé ristað lóðrétt eða lárétt. Þá er vörugjald á vöfflujárnum en ekki á pönnukökupönnum. Kaffivélar bera ekki vörugjald en hraðsuðukönnur bera vörugjald upp á 25%. Það er sem sagt dýrara fyrir neytendur að drekka te en kaffi. (Gripið fram í.)

Ég tel, virðulegi forseti, að þetta kerfi þurfi að endurskoða algerlega frá grunni (Gripið fram í.) og ég hef til þess væntingar að fjármálaráðherra Samfylkingarinnar muni ráðast í þær breytingar. (Gripið fram í.) Ef það tekst ekki í þessu áhlaupi, vonast ég til að það takist í næsta áhlaupi. (Gripið fram í.)

Skýrar og gildar forsendur verða að liggja að baki þegar ráðist er í skattlagningu og/eða vörugjöld. Ég tel að þær forsendur sem liggja að baki núverandi skipan vörugjalda séu ekki skýrar né gildar. Það er mikilvægt að skattar, tollar og gjöld séu skiljanleg neytendum og þeir átti sig á því af hverju hlutirnir eru skattaðir eða á þeim eru vörugjöld. Eins og ég hef áður rakið er vörugjaldaheimurinn frumskógur sem erfitt er að rata um og gengur ekki upp, það er í raun og veru engin lógík í vörugjöldum eins og þeim er háttað hjá okkur í dag. (Gripið fram í.)