140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:38]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég tel afar mikilvægt, og ég held að það sé mjög gott, að við tökum tvöfalda umræðu þar sem við ræðum annars vegar ábyrgð og eftirlit og hins vegar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af hálfu stjórnvalda í þessu einstaka máli. Þegar við tökum mál af þessu tagi til umræðu er tíminn oft allt of knappur og erfitt að fara í djúpa umræðu sem þó væri ástæða til. Í svona máli er alltaf mikið af rangfærslum eða þá að betri upplýsingar vantar og við sækjum upplýsingar daglega frá Evrópulöndunum, stöndum vaktina þar.

Þar er sérstök nefnd í gangi, ekki á vegum Evrópusambandsins, eins og sumir hafa óttast, heldur öryggisnefnd sem tekur upp þau viðfangsefni sem upp koma á hverjum tíma, greinir þau og reynir að vinna úr þeim. Við eigum von á skýrslu frá slíkri nefnd á næstu dögum, hún átti að koma nú fyrir mánaðamótin.

Það er mikilvægt að þessi umræða sé yfirveguð og þess vegna hafa allir færustu sérfræðingar verið kallaðir til til að meta áhættuna af þessu. Þó að við getum aldrei metið óttann og tilfinninguna sem fylgir því að vera með íhluti sem eru hættulegir inni í sér þá hefur það til dæmis komið fram hér að ekkert hefur komið í ljós sem bendir til þess að leki frá brjóstapúðum hafi áhrif á brjóstamjólk. Landlæknir mælir þar með því, í samráði við barnalækna, að konur með brjóstapúða hafi börn sín áfram á brjósti. Ég nefni þetta sem dæmi um það sem skoðað hefur verið í Evrópu og reynt að greina hvert viðfangsefnið er.

En hingað hefur komið fjöldi mála og ég held að allir séu sammála um að þetta kallar á aukið eftirlit og aukna ábyrgð. Ég ætla að upplýsa að í gangi er full vinna við að auka eftirlit í félags- og heilbrigðisgeiranum í tengslum við landlækni nákvæmlega eins og mér heyrist sumir vera að kalla eftir. Talað hefur verið um að því hafi verið hafnað, en það er ekki rétt. Rætt var um hvort það væri eftirlitsstofnun eða sjálfstætt eftirlitsbatterí sem tengdist landlækni, með kínamúrum á milli. Þetta er í fullum gangi, í undirbúningi og vinnu, í velferðarráðuneytinu og mun fá mikið inpútt úr þessari umræðu um PIP-púðana.

Það eru tvö önnur frumvörp á leiðinni. Við erum að fjalla um heilbrigðisstarfsmenn í þinginu, þetta hefur áhrif á það frumvarp. Það er líka á leiðinni frumvarp, sem var óháð þessu, þar sem verið var að skoða lækningatæki, lækningabúnað og eftirlit með slíku. Það er væntanlegt inn í þingið en verður breytt í framhaldi af þessari umræðu.