140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

matvæli.

387. mál
[15:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í sem skemmstu máli má kannski segja að þetta frumvarp hafi þann megintilgang að styrkja eftirlit með innflutningi matvæla hingað til lands. Í sjálfu sér tel ég að sú nálgun sem við sjáum í þessu frumvarpi sé eðlileg í ljósi þeirra athugasemda sem hæstv. ráðherra rakti að hefðu komið frá ESA, sem leiddu það meðal annars í ljós að lagaleg skilyrði Matvælastofnunar sem fer með þetta eftirlit væru ekki nægilega styrk til þess að geta sinnt því eftirliti eins og eðlilegt væri.

Við vitum að Matvælastofnun, oft kölluð MAST, hefur með höndum eftirlit með innflutningi dýraafurða og lifandi eldisdýra frá ríkjum utan EES-svæðisins, en hún hefur líka það hlutverk að fylgjast með innflutningi matvæla sem eiga uppruna sinn í ríkjum á EES-svæðinu. Auðvitað er ekki, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, alltaf auðvelt að átta sig á upprunanum. Það liggur ekki alltaf skilmerkilega fyrir hver uppruninn er. Það er því nauðsynlegt að hafa þessa lagaheimild svo almenna til að eftirlitshlutverk Matvælastofnunar í þessu tilviki geti bæði átt við um innflutning á vörum frá löndum utan EES-svæðisins og löndum innan þess svæðis.

Í ljós hefur komið að Matvælastofnun hafði ekki lagalega heimild til að fylgjast með þessum innflutningi eins og nauðsyn krafði og gert var ráð fyrir. Þetta frumvarp er því lagt fram til að afla þeirra lagalegu heimilda sem Matvælastofnunin þarf á að halda til að geta í raun og veru sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.

Sú spurning sem kemur auðvitað upp í þessu sambandi lýtur að persónuvernd og trúnaðarupplýsingum. Það er eðlilegt að atvinnuveganefnd fari sérstaklega ofan í þann þátt. Að mínu mati er það þó ágætlega rökstutt í greinargerðinni. Matvælastofnun er ríkisstofnun og starfsmenn hennar þar með starfsmenn ríkisins sem eiga samkvæmt þeim lögum að gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og eiga að fara leynt samkvæmt lögum. Gert er ráð fyrir því að um upplýsingar sem Matvælastofnun getur núna aflað sér rafrænt, verði þetta að lögum, eigi að gilda trúnaður. Vissulega eru fyrir því eðlileg rök.

Þess vegna þurfum við að fara sérstaklega ofan í það mál og velta upp þeim eðlilegu spurningum sem koma alltaf upp þegar um slíkt er að ræða: Með hvaða hætti tryggjum við persónuvernd? Með hvaða hætti tryggjum við að með trúnaðarupplýsingar sé farið eins og eðlilegt er? Ég er ekki að gefa til kynna með þessum orðum að ástæða sé til að vantreysta Matvælastofnun í þessu sambandi, en það er eðlileg málsmeðferð þingnefndar sem fer yfir mál sem þessi að velta líka upp álitamálum sem upp koma þegar um er að ræða breytingu sem felur í sér að færa tiltekinni stofnun aðgang að upplýsingum sem hún hefur til þessa ekki haft aðgang að.

Í sjálfu sér þarf ég ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Það er tiltölulega einfalt að allri gerð. Það er flutt að gefnu tilefni. Ísland er í sjálfu sér núna eins konar ytri landamærastöð fyrir EES-svæðið, þess vegna verða þeir sem nýta mögulega þær vörur sem fara hér í gegn að geta treyst því að staðið sé að eftirliti með innflutningi með sama hætti og gert er í öðrum löndum innan EES-svæðisins, þess vegna er eðlilegt að við þurfum að laga lagaheimildir okkar að því sem þekkist á þessu sviði til að tryggja meðal annars að við sem útflytjendur höfum sama aðgang að útflutningsmörkuðum og útflytjendur hafa á EES-svæðinu að öðru leyti.

Þetta er í raun og veru mjög sambærileg umræða þeirri sem fór fram þegar matvælalöggjöfin var á sínum tíma lögð hérna fram haustið 2008 og nokkur styrr stóð um. Kjarni þeirrar löggjafar var í rauninni sá að búa hér til sambærilegt lagaumhverfi varðandi matvælaeftirlit og gildir á EES-svæðinu til þess einmitt að geta staðið fyrir sömu útflutningsstarfsemi, hvort sem hún var á sviði landbúnaðar eða sjávarútvegs, og aðrar þjóðir innan EES-svæðisins. Hér læðist aftur inn til okkar sama hugsun og var að baki því stóra frumvarpi þó að þetta sé auðvitað allt miklu smærra í sniðum.

Varðandi kærufrestinn sýnist mér einfaldlega brugðist við með ósköp eðlilegum hætti. Það er verið að afmarka kærufrest við 60 daga. Fyrir því eru færð skilmerkileg rök sem ég tel ekki ástæðu til að vefengja.