140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef lítið um þetta að segja nema það að byggðaþróun þarf að stýrast af efnahagslegum hvötum. Það er ekki skynsamlegt að reyna að snúa við þróun sem er eðlileg. Frumvarpið gæti leitt til þess að vegna þess að eitthvert kerfi dælir peningum út til ákveðinna byggða mundu flykkjast þangað atvinnulausir menn úr Reykjavík, eins og fram kom áðan, og ég er ekki viss um að það sé góð byggðaþróun til frambúðar. Ég held að menn þurfi að skoða það nákvæmlega.

Ég legg til að hv. nefnd sem fær málið til skoðunar skoði hvaða áhrif það hefur. Auðvitað bætir það stöðu sveitarfélaga sem hafa mörg hver lent mjög illa í því. Fasteignir hafa lækkað í verði o.s.frv. Þetta kann hugsanlega að laga þá stöðu og það er jákvætt, en hins vegar óttast ég dálítið að sú gervistýring þar sem menn reyna að endurskapa ástand sem var fyrir 20 árum sé ekki alveg nógu gæfuleg vegna þess að við viljum áfram hafa byggðaþróun sem byggir á forsendum hagkvæmni og arðsemi.