140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:07]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að taka þátt í þessari umræðu um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun. Á mörgum öðrum stöðum í heiminum takast menn á í pólitík um líf og dauða, aðgang að vatni og matvælum, landrými, til þess að geta haft í sig og á. Á Íslandi verða menn helst æstir í pólitískri umræðu þegar rætt er um lagningu vega og staðsetningu húsa eða útlit þeirra. Það er því ákveðinn lúxusvandi sem Íslendingar eiga við að etja í samgöngumálum að því leytinu til að það eru forréttindi okkar og gæfa að stjórnmál okkar skuli kannski verða einna heitust í þessum efnum.

Mig langar að segja það um þá tillögu sem hér liggur fyrir að hún er um margt mjög vönduð og ég er mjög sáttur við hana í öllum megindráttum. Ég mun kannski frekar lýsa skoðunum mínum á einstökum vegaframkvæmdum í starfi umhverfis- og samgöngunefndar þar sem ég á sæti.

Mig langar til að segja almennt í þessari umræðu að mér finnst skorta svolítið á að menn horfi til framtíðar með tilliti þess að fjármagna samgönguframkvæmdir með öðrum hætti en hefðbundið er. Nú þegar er verið að grípa til óhefðbundinna leiða, til dæmis með Vaðlaheiðargöng sem hafa verið mikið í umræðunni, og dæmið um nýjan Herjólf hefur komið hér upp og áætlun hæstv. innanríkisráðherra í þeim efnum ber að fagna.

Umræðan um fjármögnun framkvæmda með veggjöldum er á miklum villigötum að mínu mati. Annars vegar er talað um notendagjöld, þ.e. gjöld sem eru innheimt með einhvers konar rafrænni GPS-tækni, eða hefðbundna vegtolla eins og í Hvalfjarðargöngunum. Ég held að sú aðferð sem þar er notuð sé barn síns tíma, hún sé ekki sú aðferð sem við munum nota til framtíðar til að fjármagna einstakar vegaframkvæmdir.

Ég held að með því að nota fyrrnefndu tegundina af gjöldum, hin svokölluðu notendagjöld, og nýta til þess GPS-tækni, væri hægt að koma með kerfi sem næði yfir allt landið og kæmi í staðinn fyrir eldsneytisgjöldin sem við innheimtum núna með mjög ójöfnum hætti, þ.e. þau eru þau sömu algerlega óháð eða nánast óháð tegund af bíl, óháð ökumönnum, óháð akstursleiðum, aksturstíma o.s.frv. Með samræmdu notendagjaldskerfi sem næði yfir allt landið væri hægt að setja eitt samræmt gjald yfir öll jarðgöng á landinu. Það væri hægt að setja eitt samræmt gjald yfir alla tvíbreiða 2+2 vegi, allar nýframkvæmdir sem skipta máli í umferðaröryggislegu tilliti. Það væri hægt að taka tillit til ökutækisins sem ökumenn nota, ef það er umhverfisvænna en önnur gætu gjöldin verið lægri. Það væri hægt að taka tillit þess tíma sem ökumenn kjósa að nota vegakerfið á. Til dæmis væri ódýrara að nýta það á minni álagstímum, snemma á morgnana, seinna á kvöldin o.s.frv. Það gæti haft þau áhrif að dreifa umferð. Það væri líka hægt að nota þetta sem tæki til að jafna aðstöðu einstaklinga. Við gætum komið til móts við til dæmis námsmenn og eldri borgara. Þá væri ekki um að ræða þann ójöfnuð sem í raun felst í hinum hefðbundnu eldsneytisgjöldum þar sem sá sem hefur 5 millj. kr. í tekjur á mánuði greiðir nákvæmlega það sama og sá sem hefur 250 þús. kr. í laun, eða bláfátækur námsmaður. Að auki væri líka hægt að nýta slíkt kerfi innan bæjar til að innheimta bílastæðagjöld, til að beina umferð með tilteknum hætti þannig að það létti á álagspunktum o.s.frv. Nú þegar er Reykjavíkurborg farin að gera fólki kleift að nýta farsímatækni til að greiða fyrir bílastæðagjöld.

Þegar menn hafa horft til hinnar nýju tækni, sem menn áætluðu fyrir ekki svo löngu að yrði komin í notkun í kringum 2016, 2017 og Hollendingar voru þar einna fremstir í flokki, sáu menn alltaf fyrir sér að notast yrði við einhvers konar tæki sem yrðu sett í bíla. En stundum tekur framþróunin völdin í sínar hendur og það er eiginlega orðið þannig að nánast helmingur þeirra sem nota svokallaða GSM-síma eru farnir að ganga með GPS-tæki á sér. Það er mjög auðvelt að sjá fyrir sér að innheimta slíkra notendagjalda færi fram með einhverjum forriti, eða það sem kallað hefur verið, virðulegur forseti, með leyfi, „applikasjón“, í þessari nýjustu tegund af símum.

Ég mundi vilja sjá það að stjórnvöld reyndu að móta áætlun og ýta af stað einhverri þróun í þessum efnum, vegna þess að vegakerfi okkar er þannig að hægt er að skipta því upp í flokka. Það er á tiltölulega lokuðu og einangruðu svæði. Við höfum sæmilegt yfirlit yfir það. Þetta gæti leyst af hólmi til dæmis þá innheimtu sem fer fram við Hvalfjarðargöngin og jafnað aðstöðu heilt yfir yfir landið.

Slíkt gjald gæti ekki bara komið í staðinn fyrir eldsneytisgjöldin eins og þau eru nýtt í dag, ég held að slíkt gjald og slíkt kerfi gæti verið grundvöllur fjármögnunar framkvæmda sem við mundum vilja sjá á suðvesturhorninu og hringinn í kringum landið. Þá á ég ekki einungis við tvöföldun á því sem eftir stendur af Suðurlandsvegi, og Vesturlandsvegi upp að Hvalfjarðargöngum og jafnvel lengra, heldur líka í þeim framkvæmdum sem menn telja nauðsynlegar og þurfi að eiga sér stað á næstu árum og áratugum, svo sem Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng.

Ég vildi því vekja máls á notendagjaldskerfi í þessari umræðu og velta því upp hvort ekki ætti að taka það upp sem lið í þeirri framtíðarsýn sem stjórnvöld sjá fyrir sér í þessum efnum. Við ættum að geta sameinast um það í þinginu að setja þetta kannski inn í nefndarálit þegar það hefur fengið umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd.

Að auki vil ég segja vegna þeirrar umræðu sem alltaf fer fram varðandi þau verkefni sem tekin hafa verið út fyrir sviga í samgönguáætlun eins og til dæmis Vaðlaheiðargöng, þá er það framkvæmd sem ég hef stutt, ekki eingöngu á grundvelli þess að þar sé um að ræða sjálfstæða fjármögnun eða fjármögnun sem stendur fyrir utan hin hefðbundnu samgönguverkefni, heldur líka vegna þess að sú framkvæmd mætir mjög vel þeim forsendum sem menn gefa sér varðandi aðrar framkvæmdir. Ef menn taka til dæmis Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng og reyna að sjá fyrir sér að fjármögnun þeirra væri með einhverjum sambærilegum hætti og Vaðlaheiðargöng, sér hver maður að umferðarmagnið þar mundi ekki skila þeim tekjum sem menn vonast eftir, jafnvel þótt menn horfi á verstu mögulegu útkomuna í Vaðlaheiðargöngunum. Í því dæmi er augljóst að hægt er að lengja í fjármögnuninni ef umferðartölur og umferðarspár standast ekki. Í versta falli fæst alltaf meginhluti þeirrar fjármögnunar með umferðargjöldum.

Þegar menn gagnrýna og segja að þetta sé dæmi sem ekki gangi upp og það sé of óljóst, vil ég líka nefna að menn geta ekki tekið út úr dæminu önnur hliðverkandi áhrif þeirrar framkvæmdar. Þegar menn horfa á atvinnusvæðið sem þarna er undir og möguleikann á einhvers konar virðisaukandi framkvæmdum sem mundu leiða af styttingu vegalengda og sparnaði sem í þeim felst, þegar menn horfa til þess að þarna er um að ræða styttingu upp á 16 km á tímum þar sem eldsneytisverð fer hækkandi, og ekki bara styttingu um 16 km heldur líka mjög erfiða 16 km með mikilli hækkun sem felur í sér töluverða aukningu á útblæstri, og mikinn kostnað í snjómokstri, þegar horft er til atvinnustöðunnar og þeirra starfa sem slík framkvæmd mundi skapa og til verktakabransans — þegar allt þetta er tekið saman í eina mynd, blasir það við mér að minnsta kosti að við eigum að ráðast í þessa framkvæmd.

Við mér blasir líka í þeirri ályktun sem við fjöllum hér um að við þurfum að vera meira stórhuga einmitt um þessar mundir, í ljósi atvinnuástandsins. Við verðum að leyfa okkur að vera skapandi í hugsun þegar kemur að fjármögnun þessara framkvæmda á suðvesturhorninu, á Vestfjarðakjálkanum og á Austurlandi, vegna þess að það er akkúrat núna sem ríkið á að láta til sín taka í þessum efnum. Það er akkúrat núna sem sá geiri sem þarna stendur að baki þarf á því að halda.

Ég held að ef menn mundu skoða til dæmis einhvers konar notendagjaldskerfi sem er raunhæft að taka upp, gætu menn fundið leiðir til að fjármagna þessar framkvæmdir. Þær eiga ekki að vera keppikefli kjördæma. Þær eiga ekki að vera bitbein þingmanna. Þetta eru allt saman framkvæmdir sem gagnast allri þjóðinni. Það er ekki neinum Reykvíkingi til framdráttar að byggð leggist af á Vestfjörðum. Það er ekki neinum Reykvíkingi eða Sunnlendingi til framdráttar að Vaðlaheiðargöng verði ekki að veruleika. Þetta er það lítið land og hagsmunir okkar svo sameiginlegir að þetta skiptir okkur öll máli. Við eigum að geta farið yfir þessi mál, þó auðvitað höfum við skiptar skoðanir á forgangsröðun, og komist að sameiginlegri niðurstöðu, vegna þess að samgönguframkvæmdir eru þess eðlis að þær gagnast ekki bara þeim á svæðunum þar sem þær eru framkvæmdar, heldur öllum í landinu.