140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[18:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022 og tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2014.

Sú áætlun sem hér er lögð fram er önnur fjarskiptaáætlun Íslands. Sú fyrri sem var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi gilti fyrir árin 2005–2010. Fjarskiptasjóður var settur á laggirnar til að fylgja eftir framkvæmd þeirrar áætlunar og var stofnaður með lögum um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005. Hlutverk hans er að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfafjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna enda sé kveðið á um þau í fjarskiptaáætlun og ætla má að ekki verði í þau ráðist á markaðsforsendum. Framkvæmdir vegna verkefna fjarskiptasjóðs eru boðnar út og er það hlutverk stjórnar að ákveða tilhögun og stærð útboða.

Með lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., nr. 133/2005, var samþykkt að leggja sjóðnum til fjármagn að fjárhæð 2.500 millj. kr. Þeir fjármunir sem samþykkt hefur verið að leggja í fjarskiptasjóð eiga fyrst og fremst að standa straum af þremur markmiðum fjarskiptaáætlunar.

1. Að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingum árið 2007.

2. GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1, öðrum helstu stofnvegum og á helstu ferðamannastöðum.

3. Dreifing sjónvarpsdagskrár Ríkisútvarpsins, auk hljóðvarps Rásar 1 og Rásar 2, til sjómanna á miðum við landið og til strjálbýlli svæða verði stafræn um gervihnött.

Til að hrinda í framkvæmd markmiðum og áætlunum fjarskiptaáætlunar 2005–2010 hefur fjarskiptasjóður staðið í umfangsmiklum framkvæmdum í samvinnu við fjarskiptafyrirtækin og hafa fjármunir fyrst og fremst nýst í að GSM-væða hringveginn sem og að bjóða upp á háhraðatengingar á svæðum með skilgreindan markaðsbrest. Þessum tveimur verkefnum er nú nánast lokið og ljóst að í kjölfar bankahruns og efnahagskreppu verður bein aðkoma stjórnvalda og fjárhagsleg útgjöld ríkisins ekkert í líkingu við það sem var þegar fjármunum af söluandvirði Símans var varið til uppbyggingar fjarskipta á landinu.

Ný sóknarfæri blasa við á nýjum tímum sem kalla á samstarf og samvinnu við hagsmunaaðila og fjarskiptafyrirtæki um áframhaldandi þróun og uppbyggingu fjarskipta á Íslandi. Óhætt er að fullyrða að staða okkar Íslendinga í fjarskiptamálum er góð á alþjóðlegan mælikvarða. Við búum við gott aðgengi, hagkvæmt verð og rekstraröryggi er gott. Þessi staða breytir því þó ekki að víða má gera betur og við verðum sífellt að vera reiðubúin að leita bestu hugsanlegra lausna.

Fjarskiptaáætlun sem ég mæli nú fyrir var unnin í nánu samráði við hagsmunaaðila og hefur undirbúningur staðið yfir í töluverðan tíma. Vinnuhópar ráðuneyta hafa komið að verkefninu og hafa fjarskiptafyrirtæki og markaðsaðilar einnig komið sínum athugasemdum að. Innanríkisráðuneytið stóð fyrir opnum fundi með Skýrslutæknifélaginu auk þess að kynna drög að áætluninni á vef sínum. Tekið var tillit til athugasemda eins og rétt þótti.

Með fjarskiptaáætlun til tólf ára, 2011–2022, og framkvæmdaáætlun um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2014 er sett fram heildstæð stefna í fjarskiptamálum stjórnvalda. Horft er til fjarskipta, póstmála, rafrænna samskipta og stafrænnar miðlunar. Áætlanagerðin á að vera í samræmi við aðra áætlanagerð innanríkisráðuneytisins, ekki síst samgönguáætlun sem ég mælti fyrir fyrr í dag og því eru þessar áætlanir lagðar samtímis fram til Alþingis til umræðu og umfjöllunar. Að auki eru ákveðin atriði í fjarskiptaáætlun sem falla vel að stefnumörkun stjórnvalda í byggðaáætluninni Ísland 2020.

Ég mun á eftir fara yfir áætlunina og málaflokkinn út frá fjórum markmiðum og áhersluatriðum sem eru meðal annars í góðu samræmi við áherslu samgönguáætlunar sem rædd var hér á undan og er rökrétt umfjöllunarefni varðandi uppbyggingu og rekstur innviða samfélagsins. Þessi fjögur markmið eru eftirfarandi: Aðgengileg og greið fjarskipti, hagkvæm og skilvirk fjarskipti, örugg fjarskipti og umhverfisvæn fjarskipti.

1. Aðgengileg og greið. Markmið stjórnvalda varðandi aðgengileg og greið fjarskipti eru fjölþætt. Meðal annars má nefna eftirfarandi atriði: Stefnt er að því að 90% lögheimila og vinnustaða eigi kost á 30 megabitum árið 2014 og markmiðið verði komið upp í 100% árið 2022. Að 50% lögheimila og vinnustaða eigi kost á 100 megabitum árið 2014 og nánast allir eða 99,9% landsmanna verði komnir með 100 megabit árið 2022. Undir þetta markmið fellur einnig sú fyrirætlan að byggðakjarnar á landi með yfir 50 íbúa verði tengdir með ljósleiðara á tímabilinu sem og að ljósleiðarahringtenging nái að lágmarki til landsvæða/byggðakjarna með yfir 5 þús. íbúa.

Undir þetta markmið um aðgengileg og greið fjarskipti falla ýmis verkefni sem lúta beint að innanríkisráðuneytinu, stofnunum þess og öðrum ráðuneytum. Má þar nefna samræmingu útgáfu rafrænna skilríkja, ríkisnetfanga og annarra skírteina gefnum út af innanríkisráðuneyti. Þá má einnig nefna sameiningu Þjóðskrár, Skipaskrár, Ökutækjaskrár og fleiri skráa í nýja upplýsingatæknimiðstöð. Einnig er stefnt að því að innleiða rafræn viðskipti hjá innanríkisráðuneytinu og stofnunum þess þar sem það er hagkvæmt og tæknilega mögulegt.

2. Hvað varðar hagkvæmni og skilvirkni. Undir markmiðum hagkvæm og skilvirk fjarskipti falla ýmis verkefni. Þar er afar mikilvægt að endurskoða lagaumhverfi með tilliti til aukins hvata til fjárfestinga í fjarskiptainnviðum auk samstarfs og samvinnu við fjarskiptafyrirtæki. Endurskoða þarf gjaldskrá tíðna með tilliti til aukinnar útbreiðslu fjarskipta í dreifbýli sem og að útfæra og innleiða auðlindagjald fyrir tíðnir. Undir þetta markmið fellur einnig það verkefni að setja lög um íslenska landslénið .is í því skyni að tryggja örugga og skilvirka stjórnarhætti landslénsins. Þá er gert ráð fyrir að verkefnahópur geri tillögur að útfærslu að alþjónustukvöð í fjarskiptum sem verður að endurskoða á fjögurra ára fresti, fyrst árið 2014.

Þá vil ég nefna póstmálin sem eru mikilvægur hluti af markmiðssetningu um hagkvæm og örugg samskipti. Stefnt er að því að opna íslenska póstmarkaðinn enn frekar en nú er. Íslenskur póstmarkaður hefur ákveðna sérstöðu gagnvart erlendum mörkuðum að því leyti hversu strjálbýlt landið er — strjálbýlast allra landa í Evrópu með um þrjá íbúa á hvern ferkílómetra. Það felur í sér að mikill munur er á dreifingarkostnaði eftir því hvort um er að ræða þéttbýli eða dreifbýli. Til að tryggja hag neytenda í dreifbýli gildir sama verð fyrir bréfapóst um allt land. Af því leiðir að við innleiðingu pósttilskipunar Evrópusambandsins og opnun póstmarkaða felst ákveðin krafa að tryggja alþjónustu fyrir neytendur á markaðslega óhagkvæmum svæðum, eins og það er kallað.

Ljóst er að kröfur um alþjónustu og gæðakröfur sem settar hafa verið, svo sem krafa um fimm daga þjónustu og krafa um 85% af pósti skuli borin út daginn eftir póstlagningu, geta í sumum tilfellum verið afar kostnaðarsamar og falið í sér langtum meiri kostnað en þær tekjur sem rekstraraðili hefur af því að veita þjónustuna. Helgast það af þeirri staðreynd að sama gjaldskrá er fyrir sendingu bréfa um allt land óháð því hvaðan og hvert það er sent innan lands. Í gjaldskrá Íslandspósts er þannig jöfnun eða millifærsla þar sem einkarétturinn greiðir niður þjónustu við hinar dreifðu byggðir. Póstsendingar á svæðum þar sem ódýrt er að þjóna svo sem á höfuðborgarsvæðinu eru verðlagðar yfir kostnaði við að veita þjónustuna en sendingar út á land eru aftur á móti verðlagðar undir kostnaði.

Við opnun markaða með afnámi einkaréttar er líklegt að nýir aðilar munu fyrst og fremst einbeita sér að þeim svæðum á landinu þar sem verðlagning Íslandspósts fyrir þjónustuna er yfir kostnaði eins og á höfuðborgarsvæðinu. Við það gæti fyrirtækið orðið fyrir umtalsverðum tekjumissi. Óbreyttar kröfur um alþjónustu, færri bréf og væntanleg samkeppni á þeim svæðum þar sem hagstæðast er að reka póstþjónustu vekja upp spurningar um hvernig eigi að fjármagna sömu þjónustu og nú er við lýði. Þá er jafnframt nauðsynlegt að fram fari umræða um alþjónustu og útfærslu hennar í ýmsum tilvikum.

Við innleiðingu tilskipunar ESB um opnun markaðar fyrir samkeppni, sem stefnt er að því að innleiða eftir þörfum, er mikilvægt að tryggja að allir hafi aðgang að ákveðinni grunnþjónustu, alþjónustu, óháð því hvar á landinu þeir búa. Nauðsynlegt er að umræða fari fram um alþjónustu þar sem leitað verði til sjónarmiða íbúa í dreifbýli og þéttbýli og afstöðu Íslandspósts, Póstmannafélags Íslands, Neytendasamtakanna, Samtaka atvinnulífsins og ef til vill fleiri aðila um það hvort og þá með hvaða hætti eigi að opna markaðinn fyrir samkeppni. Við munum ekki fara hraðar en þörf er á og við knúin til að gera samkvæmt þeim skilmálum sem við höfum undirgengist.

3. Örugg fjarskipti. Þegar við ræðum um örugg fjarskipti verður að hafa í huga að mikið liggur við að hægt sé að tryggja öryggi fjarskipta nægilega en á þeim eru margar hliðar. Gæta þarf að öryggi fjarskiptavirkjanna sjálfra gagnvart ýmiss konar vá og vernda þau fyrir ólögmætum aðgerðum. Fjarskipti ættu ekki að rofna þó svo að einstakar einingar eða hlutar kerfisins bili sem er meðal annars horft til við skipulagningu fjarskiptakerfisins að hluta eða í heild. Mikið hefur verið gert á undanförnum árum til að tryggja öryggi en eftir því sem fjarskipti verða yfirgripsmeiri og mikilvægari þáttur í samskiptum innan lands og utan þarf að auka öryggi og bregðast við nýjum hættum.

Ýmsar kröfur má leggja á fjarskiptafyrirtæki sem skilyrði almennrar heimildar, þar með talið skilyrði varðandi rekstraröryggi neta, tryggingu um samstæð net og samhæfni. Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett reglur um virkni almennra fjarskiptaneta og kveða þær meðal annars á um að hlíta skuli tilteknum stöðlum, vernd almennra fjarskiptaneta, afkastagetu og flæði umferðar um almenn fjarskiptanet, stjórn almennra fjarskiptaneta, virkni tölvupóstkerfa o.fl.

Í fjarskiptaáætlun til fjögurra ára eru tillögur sem lúta að stefnumótun stjórnvalda um netöryggi og vernd innviða upplýsingasamfélagsins er varðar þjóðaröryggi sem og fleiri tillögur er lúta að kortlagningu mikilvægra fjarskiptainnviða sem og að skilgreina kröfur til neyðarfjarskipta.

Evrópusambandið hefur birt tilskipun um greiningu á mikilvægum innviðum og vernd þeirra. Tilskipunin er liður í að framkvæma stefnu um vernd innviða aðildarríkja að því er sagt er. Hún fellur undir ábyrgð almannavarna en snertir málaflokka nokkurra ráðuneyta. Það er innanríkisráðuneytisins og stofnana þess að koma að málum um vernd innviða á þessu málefnasviði.

4. Umhverfisvæn fjarskipti. Margir snertifletir eru á milli fjarskiptamála og umhverfismála. Undanfarin ár hefur samspil þessara þátta fengið aukið vægi í stefnumörkun fjarskiptamála á alþjóðlegum vettvangi. Ríki heims, meðal annars Svíar, Danir og Bretar, hafa lagt mikla áherslu á víxlverkan og samþættingu umhverfissjónarmiða við langtímastefnumörkun og framþróun fjarskipta- og upplýsingatækni. Vaxandi áhersla er lögð á góða orkunýtingu fjarskiptatækninnar auk þess sem beita má henni við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum svo sem að nýta hana við stjórn samgangna og einnig í stað samgangna.

Flest bendir til að vægi umhverfismála aukist áfram á komandi árum og fjarskiptatækni verði í auknum mæli nýtt í þágu þeirra. Meðal annars byggist sjálfbær nýting auðlinda, svo sem fiskstofna, á öflugri vöktun á lífríkinu og náttúrunni í heild sinni og gegna fjarskipti þar lykilhlutverki.

Vöktun á náttúru Íslands, svo sem með tilliti til mengunar í lofti eða vatni, vöktun á eldvirkni, hreyfingum jarðskorpunnar eða flóðum, hefur farið vaxandi. Er það ekki síst vegna framþróunar í tækni sem efla þessa vöktun og opna fyrir sífellt fleiri möguleika. Við vöktun eykst þekking á orsakasamhengi í náttúrunni og opnar möguleika til nýtingar, til dæmis til að spá fyrir um eldgos. Búnaður til vöktunar nýtir fjarskipti til að koma mikilvægum upplýsingum til skila á rauntíma þar sem þær eru greindar. Oft er þessi búnaður fjarri mannabyggðum.

Aðgangur að lögnum er grundvallarforsenda fyrir því að auðvelda og hvetja til frekari framþróunar háhraðanets. Allt að 80% kostnaður við að leggja ljósleiðara felst í því að grafa skurð fyrir lögnum. Með því að nýta aðrar framkvæmdir má því spara umtalsverðar upphæðir. Stuðla má að aukinni hagkvæmni við lagningu ljósleiðara og uppbyggingu fjarskiptaneta með því til dæmis að nýta opinberar framkvæmdir, svo sem við lagningu og endurnýjun veitulagna og jafnvel vega.

Þegar nýir vegir eru lagðir eða skurðir grafnir ætti því að íhuga lagningu ljósleiðara eða í öllu falli lagna. Aðgangur að lögnum ætti að vera aðgengilegur öllum markaðsaðilum á sanngjörnum skilmálum og með hliðsjón af jafnræðisreglu. Finnar og Svíar hafa gripið til aðgerða í þessu sambandi. Finnar hafa sett lög um að framkvæmdir við skurði skuli nýttar og ljósleiðarar skulu ávallt vera lagðir ofan í skurði. Svíar hafa bæði gert breytingar í þágu fjarskipta í skipulagslöggjöf og lagt ákveðnar skyldur á sveitarfélög til að stuðla að uppbyggingu.

Umhverfissjónarmið skipta miklu máli varðandi ráðstöfun á landi fyrir fjarskiptalagnir í jörðu eða aðstöðu fyrir þráðlausa sendistaði. Aðrir þættir sem lúta að umhverfisvernd skipta einnig máli og mætti hafa mörg orð um þá.

Með breyttu umhverfi, nýrri fjarskiptalöggjöf og því samkeppnisumhverfi sem við búum við eru stjórnvöldum settar ákveðnar skorður varðandi afskipti af fjarskiptamarkaði. Hlutverk stjórnvalda í nýrri fjarskiptalöggjöf er að setja reglur á markaði og tryggja eftirlit með þeim reglum.

Mikilvægt markmið þessarar áætlunar er að tryggja áframhaldandi uppbyggingu og góða netþjónustu á svæðum þar sem markaðsbrestur ríkir. Nokkrum verkefnum fjarskiptaáætlunar er ætlað að stuðla að þessu og ætla ég að minnast sérstaklega á tvö þeirra í lokin.

Annað er, sem segir í fjarskiptaáætlun, að gert er ráð fyrir að leggja fram frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum sem heimili að skilgreina mun hærri kröfur til gagnaflutninga undir alþjónustukvöðum og stofnkostnaður verði fjármagnaður úr alþjónustusjóði.

Hitt verkefnið er í samræmi við lög um fjarskiptasjóð sem var breytt hér á landi á Alþingi í desember 2011. Þar var kveðið á um áframhaldandi starfsemi sjóðsins sem við munum nýta til áframhaldandi uppbyggingar á þessum kerfum. Við erum að aðlaga okkur að nýjum háttum og ætlum að tryggja áframhaldandi samfélagslega uppbyggingu á þessum kerfum.

Ég hef nú mælt fyrir þingsályktunartillögum um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022 og fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2014. Ég legg til að tillögunum verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.