140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

rannsókn á Icesave og einkavæðingu banka.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að ég heyri ekki að hv. þingmaður hafi viljað fara aðrar leiðir að því er varðar endurskipulagningu bankanna en ríkisvaldið fór þó að hann setji fram ákveðnar spurningar í því efni. Það er sjálfsagt að skoða það og við þurfum auðvitað að meta hvenær sé þá rétt og tímabært að fara í þessa athugun eða rannsókn að því er varðar endurskipulagningu á bönkunum. Ég held að það þurfi allt að liggja fyrir áður en farið verður í það eins og ég nefndi áðan. Hið sama gildir um Icesave, ég tel að við þurfum að ljúka því máli fyrir dómstólunum áður en ráðist verður í einhverja sérstaka rannsókn á því. (Gripið fram í: Nú, já.)