140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[11:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef að minnsta kosti skilið þessar áætlanir finnst mér þær vera metnaðarfullar og ég nefndi það í ræðu minni áðan að ég teldi að út af fyrir sig væri ekki neinn ágreiningur um markmiðin. Mér finnst þau vera prýðilega upp sett og ekkert í sjálfu sér sem ég sakna sérstaklega. En þetta eru orðin og síðan kemur að efndunum og verkefnunum.

Það sem ég velti upp í byrjun ræðu minnar var að mér fyndist ég ekki hafa nægilega góða yfirsýn, á grundvelli þessa plaggs, um hvað ætti síðan í raun og veru að gerast næstu árin. Tökum bara dæmi sem við þekkjum öll og það er GSM-símasamband víða um land. Hvað ætla menn að gera til að bæta það? Það er ekki eins og það ætti að vera. Þá er ég ekki að tala um tölvutengingarnar sem er annað mál. Við þekkjum gloppurnar í GSM-símasambandi á til dæmis þjóðvegi 1, það þekki ég á leið minni norður í land. Á stórum svæðum á leiðinni vestur til Ísafjarðar eða frá Ísafirði til Reykjavíkur um Djúpið til dæmis eru stórar gloppur og mjög stórar gloppur á Vestfjarðavegi 60, og er nú ánægjulegt að ég geti komið þeim vegi að svona rétt einu sinni fyrir hæstv. innanríkisráðherra.

Þarna hefði ég viljað sjá eða að minnsta kosti hafa einhverjar upplýsingar um hvernig menn ætla að fara í þetta. Að öðru leyti tek ég undir það með hv. 1. þingmanni Suðurkjördæmis að ég geri ekki ágreining um markmiðin.

Við verðum síðan alltaf að hafa í huga þá staðreynd að tækniframfarir í fjarskiptamálum eru gríðarlegar. Þau markmið sem við settum á sínum tíma við gerð fyrstu fjarskiptaáætlunar, 2004 hygg ég að það hafi verið, voru talin mjög metnaðarfull. Á þeim tíma töldu menn sig vera að setja markmið um mjög mikla bandbreidd og að verið væri að uppfylla markmiðin til allrar framtíðar. Núna segjum við hins vegar, þegar við erum búin að uppfylla þau í meginatriðum, með undantekningum, að (Forseti hringir.) þetta sé nú alls ekki nógu gott, og þannig verður þróunin.