140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Aðeins um vörugjöldin, það er rétt sem kom fram áðan, fyrri ríkisstjórnir breyttu vörugjöldunum margoft og iðulega til lækkunar. Eitt af því fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerði, og meðal annars nefnd sem hv. þm. Magnús Orri Schram sat í, að vori 2009, var að ákveða að draga allar þær lækkanir til baka, þ.e. hækka vörugjöldin að nýju. Það sem ég bið um er að menn skoði kerfið og einfaldi kerfið. Er til dæmis eðlilegt að innflutningskvótar á landbúnaðarvörum, byggðir á GATT-samningnum, miðist við neyslu Íslendinga á árunum 1986–1988? Er til of mikils mælst að biðja um endurskoðun á kerfinu til hagsbóta fyrir neytendur? Ég segi nei. Það verður að fara í þessa endurskoðun og taka tillit til þess sem neytendur hafa fram að færa í dag og einfalda kerfið, gera það skýrara og skiljanlegra.

Hitt sem ég vildi koma inn á áðan og tek heils hugar undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni, er að það er brýnt að menn komi á dagskrá umræðu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Áðan var talað um að andstæðingar meðal annars Evrópusambandsaðildar yrðu að vanda betur mál sitt. Ég veit ekki lengur hvort hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir er talsmaður þess að ganga í ESB eða andstæðingur því að hún skrifaði grein með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í Fréttablaðið fyrr í vikunni þar sem hún sagði að nú væri ferli í gangi sem fælist í að kanna kosti og galla aðildar. Það eru ekki aðildarviðræður. Ég tel mjög brýnt að við fáum það skýrt fram, meðal annars af hálfu hæstv. utanríkisráðherra sem virðist vera um það bil eini maðurinn innan ríkisstjórnarinnar sem reynir að fylgja eftir ákvörðun Alþingis, og fáum á hreint hvort við séum ekki örugglega í aðildarviðræðum sem muni síðan ljúka með því að þjóðin fái aðkomu að málinu og fái að segja skoðun sína.