140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mjög sérstakt að koma hér upp á eftir stjórnarliðum og heyra hvernig þetta ágæta fólk reynir að telja okkur, og þeim sem eru hugsanlega að hlusta á þessa umræðu, trú um að hér sé bara allt í himnalagi. Við sjáum að fólk flýr land í stórum stíl, fer til annarra landa til að vinna og afla sér tekna. Er það vegna þess að hér sé allt í blóma? Nei, frú forseti, það er ekki vegna þess að hér sé allt í blóma. Það er vegna þess sem ríkisstjórninni hefur ekki tekist að gera. Svo talar hæstv. forsætisráðherra um sjávarútveg í sókn. Af hverju er sjávarútvegurinn í sókn? Vegna þess að þar vinnur harðduglegt fólk. Vegna þess að þar eru einstaklingar sem kunna til verka. Það er ekki vegna þess að óvissan sem hæstv. forsætisráðherra hefur skapað þessari grein hjálpi henni. Það er ekki þess vegna sem sjávarútveginum gengur vel, heldur vegna þess að þar er alvörufólk að störfum.

Það er nefnilega svolítið merkilegt með það (Gripið fram í.) að hæstv. forsætisráðherra og stjórnarþingmenn virðast hafa horn í síðu sjávarútvegs og iðnaðar, svo furðulegt sem það er. Sérstaklega má annar stjórnarflokkurinn ekki heyra orðið ál, hvað þá álpappír eða eitthvað slíkt, þá fer allt á annan endann. Það er hins vegar líka sá iðnaður sem heldur samfélaginu gangandi, akkúrat sá iðnaður. Þær atvinnugreinar sem þessi ríkisstjórn vill koma sem mest í vanda bera uppi íslenskt samfélag. Það er einfaldlega þannig.

Ég veit, frú forseti, að hvorki við sem viljum þessum atvinnugreinum vel né þeir sem þar starfa ætla að láta hæstv. forsætisráðherra eða aðra í þessari ríkisstjórn koma sér á kné. Það mun ekki takast, það er einfaldlega þannig. Sjávarútvegurinn verður áfram undirstöðuatvinnugrein þessarar þjóðar ef hann fær að vaxa og dafna í friði, en þá þarf að eyða óvissu. Sú óvissa er þessi ríkisstjórn. Það þarf að koma henni frá völdum sem allra fyrst svo hægt sé að fara að horfa fram á við. Mesta óvissan hér í öllu er þessi ríkisstjórn og við vitum ekki einu sinni hvort hún er í raun við völd því að hún virðist ekki hafa meiri hluta nema endrum og eins. Er það samfélagið sem við viljum búa við, að vita ekki hverjir stýra landinu? Nei. Þessi ríkisstjórn þarf að fara frá því að aðeins þannig getum við byggt upp atvinnulíf á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)