140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

sjálfbærar hvalveiðar.

453. mál
[16:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka enn hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svörin og gagnrýni um leið fyrirspyrjandann fyrir orðalag á fyrirspurnum sínum. Hér hefði auðvitað verið nær að skilja að hina líffræðilegu merkingu orðsins sem mætti reyndar vera betra orð um — ég hygg að þetta sé ekki mjög gamalt hugtak á íslensku fyrir það að vera ekki ágengur, að stunda ekki rányrkju — og síðan hina breiðari skilgreiningu sem stafar af notkun orðsins í íslenskun hugtaksins um sjálfbæra þróun. Hér hefði verið nær að spyrja hvort væri verjandi gagnvart stefnu stjórnvalda, sem ég geri ráð fyrir að hér sé á ferðinni, um sjálfbæra þróun, að nýta annars vegar ekki nema lítinn hluta af skrokknum af því dýri sem veitt er og hins vegar að veiða hér í geymslu afla sem ekki selst. Þegar ég segi ekki selst veit ég vel af tölunum í útflutningsskýrslunum fyrir árið 2010 og 2011 og efa að á bak við þær standi nokkuð annað en bókhaldslegar færslur milli fyrirtækja sem standa í mjög nánu sambandi hér og þar megin hafs.

Um hina nýtanlegu hluta og ónýtanlegu hluta af skepnunum má lengi deila. Það er hægt að nýta með ýmsum hætti það sem til fellur. Ég efast um að það sé siðlegt þótt það sé hugsanlega löglegt að veiða dýr og fleygja því í hafið nánast öllu saman, alveg á sama hátt og menn gætu dregið inn í þessa umræðu fílabein og hákarlsugga (Forseti hringir.) þar sem aðrir hlutar þeirra dýra væru ekki nýtanlegir.