140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég legg hér fram til umræðu skýrslu um heildstæða orkustefnu fyrir Ísland sem dreift var til hv. þingmanna í nóvember sl. Segja má að skýrsla þessi sé brautryðjendaverkefni því að ekki hefur áður verið sett fram á einum stað heildstæð orkustefna fyrir landið.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2009 segir, með leyfi forseta:

„Mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi. Við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar- og verndarsjónarmiða. Orkustefnan styðji við fjölbreytt atvinnulíf, með áherslu á uppbyggingu vistvæns hátækniiðnaðar. Í orkustefnu verði sjálfbær nýting höfð að leiðarljósi sem forðast m.a. ágenga nýtingu á jarðhitasvæðum.“

Skýrsla sú sem hér er kynnt er tillaga stýrihóps sem iðnaðarráðherra skipaði árið 2009 og skilaði skýrslu sinni í nóvember sl. Er hér um nokkurt nýmæli að ræða þar sem skýrslan er lögð fram fyrir þingið til umræðu áður en iðnaðarráðherra gefur út endanlega orkustefnu fyrir landið. Mörg þjóðríki sem við berum okkur saman við hafa sett sér orkustefnu og í flestum löndum er fjallað um þrjá meginþætti, þ.e. orkuöryggi, skipulag orkumarkaða og samspil orku og umhverfismála þar sem höfuðáhersla er lögð á að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku og draga úr orkuframleiðslu með jarðefnaeldsneyti og þannig draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Hér á landi er jafnframt mikilvægt að fjalla um fjórða þáttinn sem er nýting orkuauðlinda til samfélagslegs ábata í víðu samhengi, t.d. sem grunn að fjölbreyttu atvinnulífi og hvernig arði af sameiginlegum auðlindum verði skilað til þjóðarinnar.

Evrópusambandið hefur sett fram metnaðarfull markmið um að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í aðildarríkjunum sem er að árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegrar orku 20% af heildarorkunotkun. Þetta hlutfall er í dag um 11%. Þetta markmið er sett fram í tilskipun um endurnýjanlega orku nr. 28/2009 sem er hluti af EES-samningnum. Sú tilskipun verður væntanlega innleidd hér á landi á vormánuðum 2012. Ekki er öllum aðildarríkjum gert að ná 20% hlutfalli, heldur er um heildarmarkmið fyrir Evrópusambandið að ræða. Hverju landi eru sett sérstök markmið sem eru allt frá 10% fyrir Möltu upp í 49% fyrir Svíþjóð. Í tengslum við innleiðingu tilskipunarinnar er gert ráð fyrir að markmið Íslands í þessu samhengi verði 64% en nú þegar er þetta hlutfall hér á landi 67%. Það er því ljóst að sérstaða Íslands er mikil og það er tekið tillit til hennar í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu.

Leiðarljós orkustefnunnar og grunnstefið í þeim tillögum sem fram eru settar í skýrslunni er að orkubúskap Íslands verði hagað með sjálfbærum hætti samfélaginu og almenningi til hagsbóta. Þarna eru til grundvallar lagðar hinar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar, þ.e. verndun umhverfis, samfélagsleg sátt og hagræn sjálfbærni til lengri tíma litið.

Meginmarkmið orkustefnu eru eftirfarandi:

Orkuþörf almennings og almenns atvinnulífs verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma.

Við nýtingu orkuauðlinda verði borin virðing fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum landsins.

Þjóðin njóti arðs af sameiginlegum orkuauðlindum.

Þjóðhagsleg framlegð orkubúskaparins verði hámörkuð.

Orkuframboð henti fjölbreyttu atvinnulífi.

Dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Í köflum 1–5 í skýrslunni er farið almennt yfir stöðu orkumála hér á landi og aðdragandann að vinnunni. Einnig er fjallað um leiðarljós og meginmarkmið orkustefnu, auk þess sem sérstök umfjöllun er um sjálfbæra þróun. Þar kemur fram að nýtanleg raforkugeta í vatnsafli og jarðvarma sé á bilinu 30–39 teravattstundir á ári ef miðað er við það sem þegar er virkjað, er í byggingu og orkunýtingarflokki og biðflokki í tillögum rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Þar af eru um 9 teravattstundir í biðflokki sem ólíklega verða allar nýttar.

Af þeirri orkugetu eru þegar nýttar 12 teravattstundir á ári, þ.e. nálægt því helmingur. Auðlindin er ekki eins stór og oft hefur verið haldið fram. Áhersla er því lögð á að hana þurfi að nýta af yfirvegun með hámarksarðsemi og langtímahagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Bent er á að sumir þeirra orkusölusamninga sem gerðir hafa verið til þessa séu til langs tíma, sumir allt til ársins 2048 á lágu verði með takmörkuðum möguleikum til endurskoðunar. Stýrihópurinn telur mjög mikilvægt að ekki verði haldið áfram á sömu braut með þann helming sem eftir er af orkuauðlindunum okkar og að ekki verði ráðist í virkjanir nema að lágmarki fáist til baka fórnarkostnaður vegna glataðra umhverfis- og náttúrugæða og kostnaður opinberra aðila vegna rannsókna og umsýslu.

Í 6. kafla skýrslunnar er fjallað um mikilvægi þess að orkuþörf samfélagsins verði mætt með öruggum og skilvirkum hætti og telur stýrihópurinn það jafnframt eitt af grundvallarmarkmiðum orkustefnu. Þar er átt við að næg orka á viðeigandi og fjölbreyttu formi sé jafnan fyrir hendi til að mæta þörfum heimila, grunnþjónustu og almenns atvinnulífs, hvort sem er í eðlilegu árferði eða við óvenjulegar aðstæður sem skapast kunna af völdum manna eða náttúru. Meðal annars er í þessum kafla fjallað um að orkuöryggi og sjálfbærni verði aukið með því að fjölga tegundum orkugjafa eftir því sem raunhæft er hverju sinni og hvetja til dreifðari, smærri orkuvinnslukosta jafnhliða öðrum. Aðrir orkugjafar sem nefndir eru sem raunhæfir möguleikar eru lífeldsneyti, vindorka og sjávarfallaorka.

7. kafli ber yfirskriftina „Virðing fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum“. Þar er fjallað um mikilvægi þess að vernda vatn og vistkerfi þess, auk þess sem almennt er fjallað um verndargildi umhverfis og náttúru og áhersla lögð á það að við ákvarðanir um frekari uppbyggingu orkuvera, flutningsnets og orkufreks iðnaðar verði áhrif á náttúrugæði metin heildrænt.

Í 8. kafla er fjallað um að þjóðin eigi að njóta arðs af auðlindunum. Telur stýrihópurinn að orkuauðlindir þjóðarinnar geti skilað miklum arði ef það tekst að hækka verð í átt að því sem þekkist til dæmis á Norður-Evrópumarkaði. Miðað við tilteknar forsendur um magn og verð getur framlegð af raforkuvinnslu orðið af stærðargráðunni 1–1,7 milljarðar bandaríkjadala árið 2030, þ.e. um 115–190 milljarðar kr. Ef verð megavattstundar hækkaði um 10 bandaríkjadali skilaði það 40 milljörðum íslenskra kr. í aukinni árlegri framlegð miðað við vinnslu 35 teravattstunda á ári. Ákvarðanir stjórnvalda geta ráðið miklu um það hvernig þessi arður muni skiptast milli landeigenda, nærsamfélags, orkuvinnslufyrirtækja, orkunotenda og þjóðarinnar eða ríkissjóðs fyrir hennar hönd. Því fyrr sem stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar, því betri horfur eru á að ná sátt um þær meðal þjóðarinnar.

Stýrihópurinn leggur mikla áherslu á að mótuð verði stefna um skattlagningu orkuauðlinda og unninnar orku sem verði ein af skilaleiðum arðs til þjóðarinnar. Áhersla er lögð á að skattlagning sem beinist að núverandi orkuvinnslu þurfi að vera hófleg og í takti við hækkandi orkuverð í ljósi þess að í gildi eru langtímasölusamningar og fjárfestingarsamningar við orkukaupendur.

Í skýrslu stýrihópsins er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður eða stofnun þar sem haldið verður utan um allar orkuauðlindir í eigu ríkisins á einum stað. Sjóðurinn muni bjóða út nýtingarsamninga til tiltekins hóflegs tíma í senn og í skýrslunni er lagt til að sá tími verði til dæmis til 25–30 ára eða eftir eðli hvers virkjunarkosts að teknu tilliti til upphafsfjárfestingar og afskriftatíma. (Gripið fram í: Og aðstoðarmaður …) Þetta var eina atriðið sem ekki náðist samstaða um í stýrihópnum og skilaði einn úr hópnum séráliti um þetta mál þar sem hann telur að nýtingarsamningar til 25–30 ára séu til of skamms tíma.

Á vegum forsætisráðuneytis er unnið að því að útfæra fyrirkomulag auðlindaleigu og nýtingarsamninga þegar um er að ræða auðlindir í eigu ríkisins. Í tillögu stýrihópsins er lagt til að í þessu máli verði samræmis gætt hvað varðar auðlindir í eigu opinberra aðila, þ.e. að sömu reglur gildi um auðlindir í eigu ríkisins og sveitarfélaga. Með því telur stýrihópurinn að allt eignarhald verði skýrt og einfalt og að arður af auðlindunum hverju sinni verði gagnsær og sýnilegur almenningi.

Það er skoðun stýrihóps að ekki eigi að ganga á framlegð eða arðsemi orkuvinnslu og orkusölu vegna byggða- eða atvinnusjónarmiða í héraði. Markmiðum á þeim sviðum verði náð með öðrum og almennari hætti, t.d. með hlutdeild nærsamfélagsins í auðlindarentu. Stýrihópurinn telur einnig mikilvægt að vinnslufyrirtæki í opinberri eigu ráðist aðeins í virkjanaframkvæmdir sem séu hagkvæmar og skili samfélagslegum ábata og eðlilegum arði til almennings að teknu tilliti til ávöxtunarkröfu sem byggi á fjármagnskostnaði og áhættu verkefnisins sjálfs en ekki á grundvelli bakábyrgðar opinberra eigenda.

Hæstv. forseti. Í 9. kafla er fjallað um hámörkun þjóðhagslegrar hagkvæmni. Þar segir að orkusparnaður, skilvirkari orkuframleiðsla og bætt nýting komi fram í þjóðhagslegri hagkvæmni. Það sama gildi um hagnað sem til verði í hagkerfinu á grundvelli hverrar framleiddrar kílóvattstundar. Ávinningur á þessu sviði leiðir til þess að meira fé eða forði verði laus til þess að mæta öðrum þörfum í samfélaginu. Helstu markmiðin eru að auka skilvirkni orkunýtingar og draga úr orkusóun og orkukostnaði. Einnig er í 9. kafla fjallað um möguleika á útflutningi raforku um sæstreng. Markmiðið er að einangrun íslenska raforkukerfisins verði rofin með lagningu sæstrengs ef og þegar það reynist þjóðhagslega hagkvæmt, til að hækka meðalverð seldrar orku, koma umframgetu í verð, draga úr þörf fyrir umframgetu vegna lélegra vatnsára og auka rekstraröryggi kerfisins og aðlögunarhæfni.

Vert er að undirstrika að í textanum segir, með leyfi forseta, um markmiðin „ef og þegar það reynist þjóðhagslega hagkvæmt“. Því er lagt til að gerð verði heildstæð hagkvæmnikönnun á lagningu sæstrengs til Evrópu þar sem lagt verði mat á samfélagslegan ábata við slíka framkvæmd að frádregnum samfélagslegum kostnaði.

Eitt af markmiðum orkustefnu er að styðja uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á grundvelli orkuauðlinda þjóðarinnar, eðlis þeirra sem endurnýjanlegra auðlinda og reynslu og þekkingar á sjálfbærri nýtingu slíkra auðlinda. Um það er fjallað í 10. kafla Þar segir að fjölbreytt atvinnulíf dragi úr efnahagslegri áhættu, auki stöðugleika og þol gagnvart sveiflum og áföllum, og styðji við sjálfbærni hagkerfisins og þjóðfélagsins. Lögð er áhersla á að orkufyrirtæki í opinberri eigu skuli stefna að því að auka og viðhalda fjölbreytni í hópi viðskiptavina sinna. Til að ná því markmiði að auka fjölbreytni í atvinnulífinu sé mikilvægt að í boði verði hverju sinni orka til fjölbreyttra verkefna, í smærri og meðalstórum einingum, þ.e. annars vegar 1–10 megavött og hins vegar 10–50 megavött, til afgreiðslu innan þess tímaramma sem uppbygging verkefnanna af þeim stærðargráðum tekur að jafnaði, þ.e. eitt til fjögur ár.

Í kaflanum er einnig fjallað um að orkusölusamningar verði sem fjölbreyttastir hvað varðar orkumagn og tímalengd og að þeir renni út á mismunandi tímum.

Í 11. kafla er fjallað um mikilvægi þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis hér á landi. Þó að nær öll raforkuframleiðsla hér á landi eigi uppruna sinn í endurnýjanlegum orkulindum og það sama megi segja um þá orku sem nýtt er til húshitunar, þ.e. um 67%, eiga um 33% af heildarorkunotkun hér á landi uppruna sinn í jarðefnaeldsneyti sem nýtt er á fiskiskipaflotann og til samgangna á landi. Hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum hér á landi er innan við 1%.

Árið 2010 var flutt inn hingað til lands jarðefnaeldsneyti fyrir 44 milljarða kr. í gjaldeyri. Það er því til mikils að vinna í þjóðhagslegum sparnaði ef hægt væri að nota innlenda orkugjafa í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Olíuverð er hátt og margt bendir til þess að það fari hækkandi, því er mjög mikilvægt að leita leiða til að draga úr olíunotkun Þar koma ekki eingöngu við sögu sjónarmið um almenna efnahagslega hagsmuni þjóðarinnar, heldur spila þar einnig inn öryggissjónarmið, skuldbindingar okkar í loftslagsmálum og skuldbindingar um notkun endurnýjanlegra orkugjafa á Evrópska efnahagssvæðinu.

Stýrihópurinn var í nánu samráði við þá vinnu sem fram hefur farið hjá Grænu orkunni um orkuskipti í samgöngum og tekur undir þau markmið sem sett eru fram í stefnumótun um orkuskipti þar sem markmiðin eru að að minnsta kosti 10% eldsneytis í samgöngum og sjávarútvegi verði af endurnýjanlegum uppruna árið 2020 og að sama ár verði stefnt að því að 75% nýskráðra bifreiða undir 5 tonna þyngd gangi fyrir eldsneyti af endurnýjanlegum uppruna.

Í lokakafla skýrslunnar, þeim 12., er fjallað um fræðslu, rannsóknir og mikilvægi þess að hér á landi sé staðið vel að fræðslu og kynningu á orkumálum, bæði hjá opinberum aðilum sem og hjá frjálsum félagasamtökum og innan einkafyrirtækja. Í 12. kafla er einnig fjallað um alþjóðlegt samstarf á sviði orkumála og mikilvægi þess að vel sé fylgst með því sem fram fer í orkumálum á alþjóðavettvangi.

Viðaukar eru við skýrsluna þar sem meðal annars er farið yfir helstu hugtök sem notuð eru í textanum, yfirlit yfir helstu lög og reglur um orkumál o.fl.

Virðulegi forseti. Skýrsla þessi er lögð fram til umræðu til að fá fram sjónarmið þingmanna áður en endanleg stefna verður mótuð. Meðan á vinnunni stóð hafði stýrihópurinn samráð við fjölda aðila. Í lok maí 2010 voru frumdrög orkustefnuskjals send 26 aðilum til umsagnar og bárust þá umsagnir frá 13 aðilum og styttri svör frá nokkrum til viðbótar.

Í janúar 2011 voru drög að orkustefnu kynnt opinberlega og lögð fram til umsagnar á heimasíðu verkefnisins. Alls bárust þá 52 umsagnir og voru þær allar birtar á vefnum. Í lokaskýrslu stýrihópsins er tekið mið af innsendum umsögnum. Til að kynna verkefnið enn frekar stóð stýrihópurinn fyrir þremur opnum málþingum þar sem meðal annars var fjallað almennt um hlutverk orkustefnu, mögulegar leiðir til að haga afgjaldi af orkuauðlindum í eigu ríkisins og um eignarhald og áhættutöku orkufyrirtækja.

Það mikla samráð sem stýrihópurinn stóð fyrir við vinnslu skýrslunnar er til fyrirmyndar. Það er mikill fengur að skýrslu þeirri sem hér er lögð fram og það er von mín að á grunni hennar og á grunni skýrslu um orkuskipti, sem ég kynnti á Alþingi fyrir stuttu, geti farið fram málefnaleg umræða um framtíðarstefnu í orkumálum þjóðarinnar. Í kjölfar þeirrar umræðu sem hér fer fram á eftir verður unnið að útfærslu á endanlegri stefnu þar sem einnig verður tekið tillit til annarrar opinberrar stefnumótunar sem tengist orkumálum á einn eða annan hátt.