140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta eru áhugaverð sjónarmið sem fram koma hjá hv. þingmanni sem setur mál sitt einmitt fram undir þeim merkjum að öfgasjónarmið eigi ekki að heyrast í þessari umræðu. Þingmaðurinn vill nokkurn veginn klára alla nýtanlega orku á landinu á 13 árum. Þingmaðurinn vitnar í n-ta skipti í skýrslu frá Landsvirkjun sem hann hefur greinilega aðeins lesið hluta af því að skýrslan frá Landsvirkjun er þannig upp sett að þar eru dregnar upp nokkrar sviðsmyndir, ég held fjórar en þori ekki að fara með það.

Ein þeirra er sú sem þingmaðurinn lýsir og gerir ráð fyrir því að nánast öll nýtanleg orka á landinu sé nýtt á næstu 13 árum. Önnur er þannig að Landsvirkjun gerir ráð fyrir að ekki sé virkjað neitt — ekki neitt. Þar yrði gróðinn að vísu ekki jafnmikill árið 2025 en hann yrði verulegur á næstu 5–10 árum vegna þess að þá mundum við láta okkur nægja að borga þær skuldir sem Landsvirkjun hefur og taka þann arð sem vissulega er af virkjunum, sem betur fer, enda til þess stofnað þegar í þær var ráðist.

Þingmaðurinn segir ekki frá því heldur velur hann þá sviðsmynd sem hentar málflutningi hans best, hinum öfgalausa sáttamálflutningi þingmannsins, og gerir ráð fyrir því að öll sú orka sem eftir er verði á næstu 13 árum virkjuð án tillits til þeirra hagsmuna sem kunna að liggja síðar á tímabilinu, nokkurn veginn jafnmikil orka og hingað til hefur verið virkjuð öll þau 50 ár sem liðin eru síðan við hófum framleiðslu rafafls fyrir stórnotendur á Íslandi. Það er öfgaleysið, það eru hinar skynsamlegu sættir sem þingmaðurinn og flokkur hans, því að hann er hv. talsmaður stjórnmálaflokks síns, boðar.