140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sakaður um að hafa öfgasjónarmið uppi varðandi nýtingu virkjunarkosta í landinu. Talið er að nýtanlegt afl í jarðvarma og vatnsafli í landinu séu um 70 teravattstundir, það kemur meðal annars fram í þeirri skýrslu sem við höfum verið að ræða að hér séu á milli 60 og 70 teravattstundir.

Ég er að tala um að stíga ákveðin skref á næstum 15 árum upp í 31 teravattstund. Í þeirri skýrslu sem við fjöllum um í dag er talið líklegt að sátt eigi að geta nást um nýtingu á um 35 teravattstundum eða 30–39 eftir því hvað margir virkjunarkostir úr biðflokki fara í nýtingarflokk. Menn geta kallað það öfgasjónarmið að vilja sættast á að aðeins innan við helmingur af nýtanlegri orku í landinu sé nýttur. Ég rakti dæmi um Norðlingaölduveitu áðan. Ég get rakið fleiri dæmi en öll umræða um þau er mjög á villigötum. Ég vil að við komum okkur upp úr því fari og tökum næstu skref.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Merði Árnasyni að Landsvirkjun dró upp fleiri sviðsmyndir í skýrslu sinni, enda hefur forstjóri Landsvirkjunar sagt að hann ráði ekki för þar og taki ekki ákvörðun um hvort virkjað verði á næstunni. Hann dró upp sviðsmyndir af afkomu fyrirtækisins miðað við mismunandi leiðir sem hægt væri að fara. Ein þeirra er að virkja ekki neitt og láta Landsvirkjun greiða niður skuldir sínar á næstu 10 árum og vera þar með skuldlaust fyrirtæki þrátt fyrir Kárahnjúkavirkjun sem hér átti að færa allt í kaf. Það er sá öfgamálflutningur sem hv. þingmenn og margir aðrir í þessu samfélagi þurfa að fara að draga úr vegna þess að hér eru allt of miklir hagsmunir undir (Forseti hringir.) fyrir samfélag okkar.