140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem ég hef áhyggjur af varðandi þetta plagg að ég hef ekki, og ég er búinn að lesa í gegnum þetta, séð aðra leið en þá sem ég las upp áðan um að jafna orkuverðið.

Það kom fram í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir nokkru, á síðasta þingi eða þarsíðasta, til iðnaðarráðherra um hvað það kostaði að jafna raforkuverð alfarið, að þegar búið væri að skoða flutninginn og orkukostnaðinn miðað við meðaldýra hitaveitu kostaði um 2 milljarða á ári að jafna þetta til fulls. Þetta kunna að vera stórar upphæðir þegar við segjum það, 2 milljarðar, en í stóra samhenginu eru þær kannski ekki svo stórar.

Það er samt þannig þegar mótuð er orkustefna — og það kemur væntanlega í hlut nefndarinnar að bæta því inn í þessa skýrslu — að ef ekki er fjallað um það með öðrum hætti en hér er hvernig við getum jafnað orkukostnað heimila og fyrirtækja verðum við að koma með tillögur og leita allra leiða til að laga það.

Annað sem kemur fram á þessari sömu blaðsíðu, bls. 39, og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi fyrr í dag, er að það er boðuð hækkun, það er fyrir ofan fyrirsögnina Markmið. Þar er boðuð hækkun á raforku til almennings, til allra notenda. Það er í sjálfu sér mjög sérstakt að boða hana af því að miða á við verð á meginlandsmörkuðum. Ef ekki er meiningin að hækka orkuverð með þeim hætti sem þarna er í raun og veru boðað verður vitanlega að koma með svör við því.

Ég hef ákveðnar efasemdir um skýrsluna (Forseti hringir.) eins og hún er lögð hér fram en mun koma að því síðar.