140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir lexíuna. Ég ætla að segja eitt: Hún var algjörlega óþörf. Ég geri mér nákvæmlega grein fyrir hvað ég var að tala um.

Í þessari skýrslu tekur nefndin sér það fyrir hendur að reyna að átta sig á ákveðnum hlutum. Verið er að reikna tiltekna arðsemi í orkunýtingu. Það er gert í dæmum með þeim hætti að annars vegar er tekið sem gefið að það sem er núna í nýtingarflokki í rammaáætlun verði þar áfram og verði þar af leiðandi virkjað í framtíðinni, hins vegar er lagt til grundvallar að helmingurinn, eða þar um bil, af því sem er í biðflokki fari í nýtingarflokk og síðan er tekið til við að reikna.

Það sem ég vakti athygli á var að þessi gefna forsenda er lögð til grundvallar þegar menn reikna sig upp í tiltekna arðsemi. Af því tilefni spurði ég hæstv. umhverfisráðherra hvort þetta væri hluti af þeirri stefnumörkun sem ríkisstjórnin væri að kynna með þessu plaggi. Mér hefur gengið hálfilla að skilja hvort um sé að ræða stefnumótandi plagg á einhvern hátt vegna þess að mér hefur fundist bæði hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra víkja sér misfimlega undan því að svara að hve miklu leyti markmiðssetningar koma fram í þessu plaggi, hvort það sé hluti af stefnumörkun ríkisstjórnarinnar eða hvort um sé að ræða bara enn eina skýrsluna sem rædd er og ríkisstjórnin telji sig ekki bera neina ábyrgð á.

Forsendurnar voru mér alveg ljósar. Mér er algjörlega ljóst að það þarf að taka um þetta pólitískar ákvarðanir. Það er eðlilegt þegar svo veigamikill þáttur í útreikningum þessarar skýrslu byggir á þeirri forsendu að helmingur biðflokksins fari í nýtingarflokk að maður ræði málið á þeim forsendum.