140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[15:37]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegur forseti. Í nýjustu skýrslu OECD um menntamál kemur fram að brottfall nemenda úr framhaldsskólum er mun meira á Íslandi en að jafnaði í samanburðarríkjum OECD. Þannig höfðu 45% nýnema lokið framhaldsskólaprófi eftir fjögurra ára nám á Íslandi en 68% að meðaltali innan OECD þar sem sambærilegt nám er reyndar yfirleitt þrjú ár. Eftir sex ár frá upphafi náms höfðu 58% lokið framhaldsskólaprófi á Íslandi en tæplega fjórðungi fleiri eða 81% að meðaltali innan OECD.

Munurinn er sláandi og miklu meiri en við eigum og getum sætt okkur við. Reyndar eru vísbendingar um að brottfallið hafi minnkað eitthvað eftir hrun, enda hefur framboð á atvinnu eðli málsins samkvæmt verið minna og átakið Nám er vinnandi vegur sem hófst í haust hefur síðan verið afar mikilvæg aðgerð til að nálgast á ný þann hóp sem ekki hefur lokið framhaldsskólaprófi og færa honum nýtt tækifæri til náms. Ég vil sömuleiðis nefna að mörg ákvæði til bóta koma fram í framhaldsskólalögum sem Alþingi samþykkti árið 2008 og sum þeirra hafa ekki náð fram að ganga út af fjárskorti fram að þessu.

Nýlegar erlendar rannsóknir sýna að brottfallið er mun meira meðal karla en kvenna. Það er hærra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og er mun meira meðal þeirra sem hafa veika félags- og efnahagslega stöðu.

Stjórnarskráin setur okkur skýr markmið um persónubundna þjónustu við nemendur en í 76. gr. hennar segir, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.“

„Við sitt hæfi“, virðulegi forseti, það er kjarni málsins. Skólakerfi þar sem 30–40% nemenda hætta námi án þess að fá menntun við sitt hæfi er í alvarlegum vanda. Ég vil taka svo djúpt í árinni að kalla það eitthvert afdrifaríkasta verkefni stjórnmálanna og samfélagsins á komandi árum að ráða niðurlögum brottfallsins í skólakerfinu því að þannig leggjum við grunn að velferð ungu kynslóðarinnar í landinu og reyndar samfélagsins alls.

Orsaka brottfallsins er að leita í flóknu samspili ýmissa þátta sem tengjast nemandanum, fjölskyldunni, skólakerfinu og samfélaginu öllu. Fræðimennirnir Jón Torfi Jónasson og Kristjana Stella Blöndal hafa bent á að brottfall megi meðal annars rekja til námsleiða, mikilla atvinnumöguleika fyrir ungt fólk á Íslandi, fjárhagsvanda og heimilisaðstæðna. En fleira kemur þar til. Lengd náms til stúdentsprófs er einn þáttur sem nefndur hefur verið og sömuleiðis ofuráhersla á bóknám í okkar skólakerfi. Þar vil ég sérstaklega nefna þá fordóma sem virðast ríkja í garð verk- og tæknináms í landinu og birtast meðal annars í þeirri staðreynd að nemendur velja í langflestum tilvikum bóknám jafnvel þótt verknám henti hæfileikum þeirra og getu betur. Bóknámið nýtur að því er virðist meiri virðingar í samfélaginu og það er mikill félagslegur þrýstingur að feta þá braut. Í þessu sambandi er athyglisvert að jafnvel þótt 40% 15 ára unglinga telji sig hafa meiri áhuga á verknámi velur allur þorri nemenda á þessum aldri bóknám, 80% drengja, 90% stúlkna.

Virðulegi forseti. Orsakir brottfallsins eru þó ekki eingöngu menntapólitískar, ef svo má segja. Það sýnir glæný könnun sem gerð hefur verið á ástæðum brottfalls meðal þeirra einstaklinga sem innrituðust í verkefnið Nám er vinnandi vegur síðastliðið haust þar sem atvinnuleitendum hefur verið boðið að sækja nám í framhaldsskólum til að styrkja framtíðarmöguleika sína á vinnumarkaði. Í nóvember höfðu um 10% hópsins horfið frá námi og voru þeir spurðir um ástæður brotthvarfsins. Þá kom í ljós að stærsti hópurinn nefndi andleg veikindi sem ástæðu brottfalls og þá einkum þunglyndi og kvíða. Næstalgengasta orsökin var fjárhagsástæður, í þriðja lagi að nám hefði ekki verið við hæfi og loks námsörðugleikar eða athyglisbrestur með eða án ofvirkni.

Þessi nýja könnun sýnir okkur að það er engin einföld skýring á brotthvarfinu og eina leiðin til að komast að hinu sanna er með rannsóknum, með því að kanna viðhorf nemendanna sjálfra og greina í kjölfarið hvaða úrræði eru líklegust til að draga úr brottfalli. Þar tel ég mikilvægt að við hefjum markvissa skimun og forvarnastarf strax í grunnskólanum því að þar er gjarnan undirrót þeirra vandamála sem lýsa sér í námsleiða, hrakandi námsárangri og loks brottfalli í framhaldsskólunum.

Virðulegi forseti. Ég vil fagna sérstaklega þeirri vinnu sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur nýverið sett í gang við að greina ástæður brottfalls og úrræði í samstarfi svið sérfræðinga OECD. Þar komu fram ábendingar um úrræði, þar með talið að auka stuðningsúrræði í öllu skólakerfinu við nemendur, sem miða að því að meta námslegar þarfir nemenda og beina þeim í kjölfarið á réttar brautir. Ég vil spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvaða áform hún hefur um aðgerðir til að fylgja eftir fyrstu niðurstöðum sérfræðinga OECD sem kynntar voru fyrir áramót og hvaða leiðir hún sjái helstar til að bregðast við þeirri staðreynd að brottfall í íslenskum framhaldsskólum er mun meira en þekkist í löndunum í kringum okkur.