140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[15:59]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg):

Forseti. Á ráðstefnunni Alvara málsins – bókaþjóð í ólestri sem haldin var í janúar komu ítrekað fram ekki aðeins sterk tengsl milli áhuga á bóklestri og námsárangurs heldur einnig tengsl við almenna framgöngu og líðan í lífinu.

Brynhildur Þórarinsdóttir frá Háskólanum á Akureyri flutti erindið „Lestrarhestamennska“ og tók saman niðurstöður nokkurra rannsókna. Niðurstöðurnar eru skýrar: Læsisvandann er hægt að leysa á heimilum landsins. Læsi er sterkt í einstaklingum sem alast upp á bókaheimilum, hvað sem okkur kann að finnast um það gamla og rómantíska hugtak, hvort bækur eru sýnilegar á heimilinu, hvort foreldrar lesa fyrir börnin sín, hvort börn sjá foreldra sína lesa, hvort rætt sé um bækur og lestur. Þetta eru lykilatriðin. Sjálfstæður áhugi á bóklestri skapar læsi sem skapar sjálfstraust í tungumálinu og þar með í öllu námi.

Brottfallið á sér stað í stökkinu úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla. Þar mætir unglingunum meiri og flóknari lestur, meira sjálfstæði, meiri þörf á djúpu sjálfstrausti, sama hvort þeir stefna á bóknám eða verknám.

Hvað þroskar einstakling og styrkir hann? Hvað er það sem ýtir undir sjálfsþekkingu manneskjunnar? Listir af öllum toga, að skapa og njóta listsköpunar. Tjáning, heimspeki, siðfræði, lífsleikni, tími til að vera, rými til að vaxa innan frá. Fög af þessum toga eru enn þá olnbogabörn innan grunnskólanna. Um þetta geta kennarar og skólastjórnendur vitnað. Þetta kemur skýrt fram þegar skera þarf niður eins og síðustu árin.

Þekkingin er að mörgu leyti til staðar en það þarf viðhorfsbreytingu, bæði á heimilum landsins gagnvart lestri og læsi og í grunnskólum landsins gagnvart fögum sem ýta undir sjálfsþekkingu og mannrækt.