140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[17:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp á ekki að verða til þess að skerða sóknargjöld til annarra trúfélaga. Ákvörðun um sóknargjöld er tekin í fjárlögum. Hins vegar styðjast sóknargjöldin við ákveðnar skuldbindingar sem festar voru í lög á sínum tíma þegar breytingar voru gerðar á lögum um þjóðkirkjuna sérstaklega. Í samræmi við það var ákveðið að auka framlag til sóknargjalda í síðustu fjárlögum vegna þess að þau höfðu verið skert umfram það sem gerst hafði almennt um framlög til stofnana og starfsemi á vegum hins opinbera eða sem fjármögnuð var af hinu opinbera. Í þeirri vinnu sem unnin var af nefnd sem ég setti á laggirnar á síðasta ári kom fram að þessi þróun hafði verið sóknargjöldunum mjög óhagstæð og við byrjuðum í síðustu fjárlögum að vinda ofan af þeirri þróun. En þetta er sem sagt annar handleggur. Það er spurning um hvernig fjárveitingavaldið tekur á málum en þetta frumvarp á ekki að verða til þess að skerða sóknargjöldin.

Ekkert framlag er greitt vegna einstaklinga sem standa utan trúfélaga eða eru í trúfélagi sem ekki hafa hlotið skráningu. Um er að ræða lögbundin framlög úr ríkissjóði til skráðra trúfélaga, það eru sóknargjöldin. Auðvitað má sjá fyrir sér að ef gríðarleg aukning yrði á þessum væng hefði það náttúrlega áhrif á tekjur og útgjöld ríkisins vegna þess að þarna er um að ræða hlutfall af tekjuskatti. En ég hygg að í reynd sé ekki um að ræða neinar stökkbreytingar eða heljarstökk í þessum efnum.