140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

yfirlýsing viðskiptaþings og fundur með forsvarsmönnum sveitarfélaga.

[10:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Nú fáum við fréttir af viðskiptaþingi sem haldið er árlega og koma margar athyglisverðar fréttir af því þingi. Hæstv. forsætisráðherra sá sér ekki fært að sitja þingið. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. hvort hún hafi ekki áhyggjur af því viðhorfi sem fram kom í könnun sem gerð var í kringum viðskiptaþingið þar sem um 80% fólks í atvinnulífinu kvörtuðu yfir og lýstu í raun vantrausti á stjórnvöld. Er það ekki áhyggjuefni þegar stjórnvöld eru svo fjarlæg svo stórum þætti í íslensku samfélagi sem atvinnulífið er? Þarf forsætisráðherra ekki að bæta þarna úr og efla samskipti sín við atvinnulífið til að fyrirtækin í landinu hafi traust á stjórnvöldum til skemmri og lengri tíma?

Mig langar að leggja aðra spurningu fyrir hæstv. forsætisráðherra og hún varðar seinagang við svörun úr ráðuneytinu. Um miðjan nóvember sendu Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra bréf til hæstv. forsætisráðherra þar sem óskað var eftir fundi með ráðherranum til að ræða grafalvarlega stöðu þess svæðis sem samtökin starfa á. Forsætisráðherra hefur ekki séð sér fært að svara bréfinu eða verða við beiðni þeirra um fund. Mér er kunnugt um að ráðuneytið bauð stjórn SSV að funda með embættismönnum ráðuneytisins en um það var alls ekki beðið. Beðið var um fund með forsætisráðherra til að leggja þunga áherslu á alvarleika málsins. Það verður að segjast alveg eins og er, frú forseti, að það hljómar mjög undarlega ef forsætisráðherra hefur ekki haft færi á því frá því í nóvember að hitta forsvarsmenn eða stjórnendur þessara samtaka þar sem svo mikið liggur við, (Forseti hringir.) þ.e. hagur þessa landshluta.