140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:31]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég kem aðallega hingað upp til að minna á að þann 28. september 2010 ályktuðum við á Alþingi, allir 63 kjörnir fulltrúar, allir alþingismenn, að þrjár rannsóknir og úttektir ættu að fara fram á vegum Alþingis. Það er lykilatriði, á vegum Alþingis. Fyrst í upptalningunni var þetta, með leyfi forseta:

„Sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi frá setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og síðar. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi lífeyrissjóðanna.“

Þetta höfum við ekki gert. Það var ákveðið að bíða með þessa rannsókn sem mér finnst reyndar ekki góð ákvörðun vegna þess að þegar Alþingi hefur ályktað eitthvað á Alþingi að gera það. Það á ekki að leyfa rannsóknarefninu sjálfu að rannsaka sig eða ráða einhverja menn í það og sníða sér stakk eftir þeim vexti sem þeim hentar. Ég krefst þess að þessi rannsókn fari fram. Þetta er nokkuð sem við höfum ákveðið að gera og við eigum að standa við það.

Ég kalla líka eftir því að fram fari stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka. Í sömu þingsályktun var ákveðið að gera það. Ég veit ekki til þess að byrjað sé á því.

Hver er munurinn á rannsókn sem Alþingi lætur gera og menn úti í bæ? Munurinn er sá að við getum ákveðið hvað við viljum rannsaka og sú rannsókn sem Alþingi lagði upp með að yrði gerð er mun breiðari en rannsóknin sem lífeyrissjóðirnir létu gera sjálfir en aðalmunurinn er þær heimildir sem rannsóknarnefnd á vegum Alþingis hefur í samanburði við þær heimildir sem þessi rannsóknarnefnd lífeyrissjóðanna hafði. Hún hafði engar heimildir til að krefja menn um gögn eða svör. Í lögum um rannsóknarnefndir Alþingis stendur hreinlega í 7. gr., með leyfi forseta:

„Sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té gögn sem hún fer fram á. Með gögnum er m.a. átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samninga, álit sérfræðinga og önnur gögn sem nefndin óskar eftir í þágu rannsóknarinnar, hvort sem þau eru prentuð (skrifleg) eða á rafrænu formi.“

Svo heldur þetta áfram. Þetta er alvörunefnd sem hefur alvöruheimildir til rannsókna en það hafði ekki sú nefnd sem lífeyrissjóðirnir réðu sjálfir til að rannsaka sig, eins ágæt og hún var. Verkefni hennar var mun þrengra. Því kalla ég eftir þessari rannsókn og að Alþingi framfylgi eigin ályktunum.