140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[14:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem við skulum hafa í huga. Við erum annars vegar að hefja umræðu sem lýtur að endurskoðun stjórnarskrárinnar, grundvallarlaganna okkar. Hins vegar er um að ræða tillögu sem ætlunin er að fjalla um sem kemur frá sjálfri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.

Hvað er að gerast? Hér er það að gerast að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þ.e. meiri hluti hennar, ákveður að fara af stað með einhverjar hundakúnstir með þingsköpin til að geta tekið málið á dagskrá sem snýr að stjórnarskrá Íslands. Það er auðvitað grafalvarlegur hlutur og er ekki mjög trúverðugt þegar við erum að ræða um stjórnarskrá Íslands.

Fyrir liggur að verið er að gerbreyta þessari tillögu. Við erum komin á dökkgrátt svæði varðandi þingsköpin að því leytinu, og síðan hitt að greinilega er verið að þverbrjóta regluna um kostnaðarmatið. Nú hefði maður haldið að sjálf stjórnskipunarnefndin sem leggur fram tillögur sem lýtur að stjórnarskrá Íslands mundi einmitt gæta sín í þeim efnum, gæta sín á því og tryggja það að minnsta kosti að farið sé algerlega að þingskapalögum. Það er ekki verið að gera. Um málið má þess vegna segja: Ill verður þessi fyrsta ganga.