140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Mér þykir leitt ef hv. þingmanni fannst ræðan ekki nógu full af eldmóði. Hins vegar er ræðustíll okkar hv. þingmanns ólíkur, ég kýs að segja í fáum orðum það sem máli skiptir. Hún verður að taka tillit til þess alveg hreint eins og ég þarf að taka tillit til ræðustíls hennar og mælskulistar.

Hvað varðar Lagastofnun var engu hafnað þaðan. Farið var fram á það við Lagastofnun að gera það sem kallað var álagspróf (Gripið fram í.) — já, það var kallað það — og meta hvort einhverjar mótsagnir væru í frumvarpinu eða eitthvað slíkt sem mætti fara yfir á stuttum tíma. Lagastofnun taldi að hún gæti ekki gert það á þeim tíma sem við báðum um þannig að hún var ekki beðin um að vinna verkið. Það var engu hafnað í því.

Það er alveg ljóst að Lagastofnun hafði aðra skoðun á því hvernig á að gera þetta en við og þá verður bara svo að vera. En það er ekki þannig að Lagastofnun eða lögfræðingastéttin í landinu ráði öllu um gerð stjórnarskrárinnar. Það gerir Alþingi eins og hv. þingmaður veit manna best.