140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[19:45]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Margur heldur mig sig. Þingmenn Hreyfingarinnar hafa ekki gert neinn samning um þetta mál. Það var lagt fram 1. eða 2. október og það vill svo til að það er ágætur samhljómur milli stjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar í þessu máli og við höfum alltaf unnið þannig að við styðjum málin málanna vegna en stöndum ekki í hrossakaupum.

Svo ég reyni að svara öðrum spurningum sem til mín var beint, fannst mér túlkun þingmannsins á ræðu minni fullfrjálsleg. Um 230 umsagnaraðilar sendu nokkurn veginn samhljóða umsögn. Ég hef kíkt yfir þann nafnalista og það vill svo til að nokkrir af þessum umsagnaraðilum hafa komið á fundi nefndarinnar, til dæmis nokkrir úr Stjórnarskrárfélaginu, og við höfum rætt við þá um efnismeðferðina, þ.e. hvers konar málsmeðferð málið ætti að fá. Ég kannaðist líka við nokkra þarna sem mætt hafa á opna fundi sem Hreyfingin hefur haldið. Einhverjir þeirra hafa verið í samstarfi við aðra þannig að ég hef haft ótal tækifæri til að ræða þessi mál við nokkra þeirra sem sendu inn umsagnir.