140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:27]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga. Ég vil byrja á að segja að þetta er ákveðið prinsippmál. Hér takast á tveir hópar, annars vegar sá sem vill breyta stjórnarskránni og vill liðka fyrir því ferli og hins vegar sá sem vill helst ekki breyta stjórnarskránni, segist samt vilja það en það er holur hljómur í þeirri fullyrðingu og hann finnur ferlinu allt til foráttu og reynir að eyðileggja það. Þannig lít ég á málið. Þetta eru tveir hópar sem takast á og ég tilheyri þeim hópi sem vill breyta stjórnarskránni og þess vegna vil ég líka liðka fyrir því að málið fái framgang og fari alla leið þannig að við fáum nýja stjórnarskrá.

Það eru líka uppi ákveðin sjónarmið um hvort breyta eigi stjórnarskránni í heild, þ.e. hvort fara skuli í heildarendurskoðun á stjórnarskránni, eða hvort taka eigi ákveðin afmörkuð atriði út. Til dæmis eins og ég skil málflutning Sjálfstæðisflokksins þá vill hann frekar taka út ákveðin atriði og færði rök fyrir því í fyrri málflutningi sínum. Ég tel eðlilegt að við förum í heildarendurskoðun á stjórnarskránni og að því höfum við unnið, þ.e. sá hópur sem vill virkilega breyta stjórnarskránni og liðka til fyrir því ferli.

Varðandi forsöguna í þessu máli þá á Framsóknarflokkurinn sér nokkra forsögu og ég hef rifjað hana upp við þau tækifæri þar sem þessi mál hafa verið til umræðu. Á sínum tíma var heilmikið nefndarstarf í gangi í Framsóknarflokknum sem laut að íbúalýðræði og Jón Kristjánsson, þáverandi hv. þingmaður, leiddi það starf. Niðurstaðan í því starfi öllu var sú að við lögðum til bindandi stjórnlagaþing sem varð þó aldrei raunin. Sú er hér stendur var 1. flutningsmaður að slíku máli fyrir hönd flokksins á 136. löggjafarþingi. Þá lögðum við til að þetta yrði bindandi stjórnlagaþing, í því sætu 63 fulltrúar, að stjórnlagaþingið kæmi með tillögu að nýrri stjórnarskrá og sú tillaga færi í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að Alþingi Íslendinga kæmi ekki að málinu, að þetta verkefni væri þá tekið með lögum og með breytingu á stjórnarskrá úr höndum Alþingis.

Af hverju vildu framsóknarmenn þetta? Það var vegna þess að við höfðum ákveðna reynslu af erfiðleikum við að breyta stjórnarskrá. Það hefur verið ótrúlega þungt að breyta íslensku stjórnarskránni, hún er úrelt á mjög margan hátt. Hér hafa verið fluttar margar og að mínu mati mjög góðar tillögur um breytingar á stjórnarskránni en þær hafa ekki ratað í gegn. Sú er hér stendur hefur til dæmis flutt þá breytingu að aðskilja löggjafarvald og framkvæmdarvald, þ.e. að ráðherrar geti ekki verið þingmenn á sama tíma og þeir eru ráðherrar. Ég held að þjóðin almennt vilji það, alla vega sýna kannanir það, en Alþingi Íslendinga hefur samt ekki tekist að gera þessa breytingu. Þetta er dæmi um breytingar sem hefði verið hægt að gera en þetta ferli er allt mjög þungt.

Við höfum líka ákveðna reynslu af því að semja við annað stjórnmálaafl við ríkisstjórnarmyndun um breytingar á stjórnarskrá. Við sömdum um það við Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma að breyta auðlindaákvæðinu varðandi sjávarauðlindina, breyta stjórnarskránni. Það var ekki gert, það tókst ekki að landa því. Við höfum því ákveðna bitra reynslu af því að reyna að breyta stjórnarskránni. Það var hvatinn að því að við lögðum til bindandi stjórnlagaþing, að taka valdið af Alþingi að þessu leyti, það væri of hagsmunatengt, menn væru kannski að horfa of mikið á önnur atriði en þau sem lutu að almannahag. Þess vegna vildum við taka þetta vald úr höndum Alþingis og færa það til stjórnlagaþings sem væri sérstaklega kjörið til þessa verkefnis.

Þetta varð aldrei raunin. Það voru öfl sem voru mjög mikið á móti þessu og þar fór Sjálfstæðisflokkurinn fremstur í flokki. Við lögðum mikla áherslu á þetta, t.d. í aðdraganda kosninganna 2009 þegar við veittum þáverandi ríkisstjórn hlutleysi okkar. Þá var þetta mál drepið í þinginu í málþófi. Það er enn eitt dæmið um að við þurfum að breyta lögum að mínu mati, breyta þingsköpum, þannig að við hegðum okkur hér eins og þingmenn hegða sér á þjóðþingum í nágrannaríkjunum þar sem málþóf þekkist ekki. Þingmenn annarra Norðurlanda skilja ekki, átta sig ekki á hvað maður er að fara þegar reynt er að útskýra fyrir þeim hvað málþóf er. Það er bara fjarstæðukennt að þeirra mati að stunda slíkt. Þetta höfum við stundað, bæði stjórn og stjórnarandstaða, enginn flokkur er heilagur í þessu, allir hafa stundað þetta því að kerfið býður upp á það. Þessu þurfum við að breyta og sú er hér stendur er 1. flutningsmaður að einmitt slíku máli sem er ekki til umræðu hér.

Í aðdraganda kosninganna 2009 var það drepið með málþófi að taka upp bindandi stjórnlagaþing. Því var svo breytt í stjórnlagaráð, sem sagt ráðgefandi ráð. Það var málamiðlunin þegar við gáfumst upp fyrir málþófinu, en það er hefð fyrir því að gefast upp í málþófi af því að menn verða einhvern tíma að ljúka þingstörfum.

Síðan var kosið til ráðgefandi stjórnlagaþings og því hefur verið lýst hér í ágætum ræðum annarra ræðumanna hvernig það fór. Á það voru kjörnir karlar og konur, 84 þúsund manns mættu til leiks til að kjósa. Sú kosning var svo dæmd ógild í Hæstarétti. Þá voru góð ráð dýr. Ákveðið var í þinginu, og ég studdi þá vegferð, að sá hópur manna sem hafði þegar verið kosinn af 84 þúsund Íslendingum, fengi umboð frá þinginu til að fara í þetta verkefni, það væri illskásta leiðin miðað við stöðuna. Það var gert og stjórnlagaráð hefur skilað tillögum sem við erum að fjalla um hvernig halda eigi á í framhaldinu.

Þetta er forsagan. Ég er enn sömu skoðunar og fyrr, ég tel að við eigum að breyta stjórnarskránni, við eigum að liðka til í því ferli og við eigum að leita til þjóðarinnar með það. Ég er því sammála þeirri tillögu sem hér er til umræðu að stjórnlagaráð verði kallað saman aftur til að skoða málið og í framhaldinu verði stefnt að því að fara með hluta af tillögunum frá stjórnlagaráði, um breytingar á stjórnarskrá, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að það væri mjög vel við hæfi að leita þannig til þjóðarinnar með ákveðin álitamál. Allt tal um að allir flokkar á Alþingi verði að vera algjörlega sammála um allt í sambandi við breytingar á stjórnarskrá er auðvitað algjör útópía. Við verðum aldrei sammála um allt í því máli. Þeir sem halda þessum málflutningi til streitu eru eiginlega bara að segja: Við breytum engu af því að við vitum að það eru alltaf einhverjir á móti. Það verða mjög litlar breytingar á stjórnarskrá ef það á að vera vegferðin. Ég tel að það sé kominn tími til að ganga alla leið, að leita til þjóðarinnar um helstu álitamálin og svo gerum við upp við okkur í þinginu hvað við viljum gera, hvernig við viljum að stjórnarskráin líti út og svo verði kosið um hana að lokum.

Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af einu og það er í hvaða stöðu málið er í dag. Komið er fram í seinni hluta febrúar og klukkan tifar á okkur. Við viljum að þjóðin komi að þessu máli og ég held að þjóðin hafi áhuga á því. — Núna situr hluti þjóðarinnar heima á sprengidagskvöldi og borðar saltkjöt og baunir, ég væri sjálfsagt að því líka ef ég væri ekki að tala hér á svona skrýtnum tíma, ég hljóp eiginlega frá matnum en mæti aftur í hann á eftir, vonandi. — Ég held að þjóðin hafi mikinn áhuga á þessu máli. Það er spurning hvernig hún getur komið að því vegna þess að það er langt liðið á þann tíma sem við höfum og ég hef ákveðnar áhyggjur af því að við séum of sein. Ég hefði viljað sjá þetta mál klárast fyrir jól. Þá hefðum við verið að undirbúa núna þær spurningar sem leggja á fyrir þjóðina og værum vonandi, ef það hefði verið takturinn, að klára þær núna og hefja kynningu á þeim og svo yrði þjóðaratkvæðagreiðslan samhliða forsetakjöri um mitt sumar. Ég hef virkilegar áhyggjur af því að við séum of sein vegna þess að það eru öfl í þinginu sem vilja ekki breyta stjórnarskránni, vilja alls ekki gera það svona, finna alls konar tæknilegar hindranir í því og mála þetta mál upp þannig að það sé svo flókið að það sé nánast óbærilega flókið að framkvæma þetta, sem er auðvitað algjörlega rangt. Það er ekkert mál að gera þetta, ef viljinn er fyrir hendi er ekkert mál að gera þetta.

Ég óttast að þessi öfl geti tafið fyrir framgangi þessa máls. Við erum hér með þingsályktunartillögu, í henni er verið að boða aðra þingsályktunartillögu sem á að afgreiðast ekki síðar en 29. mars 2012 og það er vegna þess að þá getum við haft þjóðaratkvæðagreiðslu 30. júní, þjóðaratkvæðagreiðslan má ekki fara fram fyrr en a.m.k. þremur mánuðum eftir að slík þingsályktun er samþykkt, eins og lögin hljóma í dag. Ef við brennum á tíma, ef okkur tekst ekki klára seinni þingsályktunartillöguna 29. mars 2012 missum við af lestinni með þjóðaratkvæðagreiðsluna 30. júní þegar forsetakosningarnar fara fram.

Það er léttasti hlutur í heimi að taka þetta mál í málþóf. Þótt þetta sé þingsályktunartillaga, og nú er ég ekki endilega að hugsa um þá sem við erum að fjalla um núna heldur þá sem boðuð er og við erum að reyna að klára 29. mars 2012. Þá fer fram fyrri umræða um hana og þar er ákveðið kerfi um hve lengi menn mega tala. Í fyrri umr. er ákveðinn kvóti á mínúturnar þannig að það mun tæmast. En í síðari umr. gilda sömu reglur og við 2. umr. lagafrumvarpa þannig að þar eru aðrar reglur. Hvernig eru þær reglur? Jú, í fyrstu umferð mega þingmenn tala í 20 mínútur, í annarri umferð 10 mínútur og í þriðju umferð fimm mínútur, og menn mega tala eins oft og þeir vilja í fimm mínútur. Það getur vel verið að einhver biðji um og eigi rétt á því að biðja um tvöfaldan ræðutíma og þá verða síðustu ræðurnar allar 10 mínútur og hver þekkir ekki það ferli? Menn hafa nú aldeilis kynnst því upp á síðkastið hvernig það fer fram. Þá fara þingmenn í 10 mínútna ræður endalaust, í andsvör við sjálfa sig og sína eigin menn o.s.frv. og bara í hefðbundið málþóf. Ég hef verulegar áhyggjur af því að þetta mál fari í það enn á ný með algjörlega sömu leikendum í því hlutverki. Að vissu leyti má hengja svolítið ábyrgðina á því á stjórnarflokkana, að koma ekki með þetta mál fyrr inn og af því að málið kemur svo seint inn er svo auðvelt að taka það í málþóf. Það er rosalega freistandi fyrir þá sem vilja ekki breyta stjórnarskránni að gera það. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu, virðulegur forseti. Ég tel að þeir sem vilja klára þetta mál, og ég er í þeim hópi, þurfi að fara að hugsa strax um plan B í því hvaða leið sé fær, ef spá mín reynist rétt sem ég á alveg eins von á af því að maður hefur horft framan í slíkt áður.

Þá er spurningin: Á að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni ef við náum þessu ekki fyrir 30. júní? Á að hafa hana síðar eða fara í skoðanakannanir, stórar massífar skoðanakannanir sem segja okkur eitthvað um þær spurningar sem við ætluðum að leggja fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu? Ég er svo sem alveg opin fyrir báðum leiðum þannig að ég velti upp þeim fleti hér, þótt ég sé öll af vilja gerð að klára þetta mál. Sú sem hér stendur mun gera sitt til þess af því að ég vil að við breytum stjórnarskránni. Ég hef verið þátttakandi í því í mínum flokki að vilja ganga miklu lengra en við göngum núna og ég mun beita mér í því máli. Ég óttast samt að verða í minni hluta í því af því að ég held að málþófi verði beitt. Þá er ágætt að fara að hugsa næstu leiki og vera, eins og einn góður hv. þingmaður sagði á sínum tíma, „real-pólitíkus“ og meta stöðuna eins og hún er og taka á henni þannig að maður sé undirbúinn undir það að þetta mál, seinni þingsálykunartillagan, falli á tíma, því miður, og nái ekki fram vegna andstöðu.

Að lokum vil ég segja, virðulegur forseti, að ég er í megindráttum sátt við þá vinnu sem hefur verið unnin. Ég vildi að hún hefði tekið skemmri tíma og hefði óskað að þingið hefði staðið í þeim sporum sem það stendur í dag fyrir jól þar sem við hefðum þá haft meiri tök á að reyna að drífa þetta mál af. Ég óttast að við séum of sein og skrifa það að vissu leyti á ríkisstjórnarflokkana. Ég tel að þetta sé ekki eina málið sem svo er ástatt um, ég held að annað mál sé líka eiginlega fallið á tíma og það eru breytingar í sjávarútvegi. Ég verð að segja að ég er mjög hissa á að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir skuli fara núna í viðtöl og segja mjög brött að hún vilji klára bæði breytingar á stjórnarskrá og breytingar í sjávarútvegsmálunum í sinni forsætisráðherratíð á þessu kjörtímabili. Ég held að það sé nánast útilokað að klára sjávarútvegsmálin, þau eru svo umdeild og það er svo langt liðið á kjörtímabilið að ég held að það náist ekki.

Varðandi breytingar á stjórnarskrá óttast ég að við séum virkilega komin á eindaga og ég velti því hér upp til skoðunar í væntanlega stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hvort sú nefnd eigi ekki að fara að hugsa strax um plan B, þ.e. hvað eigi að gera ef þetta mál fer í málþóf, eins og mér finnst allt stefna í, og við gefumst upp gagnvart því málþófi. Væri þá ekki hægt að fara í stærri skoðanakannanir og ná fram vilja þjóðarinnar á þann hátt? Ef við náum fram nokkuð skýrri mynd af því gagnvart þessum stærstu grundvallarmálum, sem eru ekki mörg, mun það auka líkurnar á að þingmenn taki tillit til þess í þinginu og vonandi getum við þá klárað breytingartillögur að nýrri stjórnarskrá sem við getum þá kosið um í næstu almennu alþingiskosningum.