140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil líka minna á að ég hef unnið með hv. þingmanni að frumvarpi sem hún hefur flutt um að ráðherrar geti ekki bæði verið þingmenn og ráðherrar. En mér finnst hv. þingmaður hafa smitast af ríkisstjórninni, að búa til ágreining þar sem hægt er, þ.e. ef val er um ágreining eða frið er ágreiningur valinn, og hv. þingmaður talaði hérna eins og þetta væri stríð.

Það er alveg ótrúlegt að verða vitni að því aftur og aftur að sumir vita hvað þjóðin vill, þeir tala í umboði þjóðarinnar og allir aðrir sem eru á annarri skoðun en þeir eru andstæðingar þjóðarinnar, hvorki meira né minna. Þá er talað um hagsmuni, hagsmunaaðilar og aðrir slíkir séu á móti. Mér finnst því hv. þingmaður falla í gryfju, sem á ekki að eiga sér stað í umræðu um stjórnarskrá sem mér finnst að eigi að vera sáttmáli þjóðarinnar, eitthvað sem þjóðin er sammála um. Umræða síðustu ræðumanna er eiginlega meira um það að búa til mismun, ekki samráð, ekki sáttmála, (Gripið fram í: Hvað er þá …?) heldur einmála einhvers lítils hluta sem ætlar að kúga restina. Mér sýnist það. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Getur það verið að þetta sé barátta?

Svo sagði hún að þetta væri málþóf. Það er ágætt að fá svona leiðbeiningar, en menn eiga ekki að vera í málþófi sem eru á móti þessu. Ég sé eiginlega ekki ástæðu til þess, enda finnst mér málþóf ekki vera gott.

Hins vegar er til önnur lausn, frú forseti. Það er nefnilega Alþingi sem setur lögin um kosningarnar og það getur því sett inn bráðabirgðaákvæði að þessar kosningar falli ekkert undir lögin, það styttir tímann. Það eru því til margar lausnir, frú forseti, ef menn vilja.