140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja aðeins athygli á því hversu óviðunandi staðan á Alþingi er. Hún birtist okkur meðal annars í óvönduðum vinnubrögðum ríkisstjórnarflokkanna, við getum tekið þar sem dæmi þann dóm sem féll í Hæstarétti um gengistryggð lán. Við getum tekið dæmi um þá umræðu sem á að bjóða upp á og meðferð og breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Síðan þarf ekki annað en að líta á málin á dagskrá þingsins þessa dagana og undanfarnar vikur um það hversu litlu við áorkum.

Þetta snýst mest um vandræðagang á stjórnarheimilinu, sameiningu ráðuneyta, að losa sig við óþægilega liðsmenn, skiptingu á bitlingum og síðan lofræður um eigið ágæti og árangur sem lítil innstæða er fyrir. Á meðan brennur Róm, ef svo er hægt að komast að orði, og mikilvægasti málaflokkurinn kannski í þessu öllu saman, eða einn af þeim mikilvægari getum við sagt, atvinnumálin, er til dæmis algerlega í lausu lofti. Engar tillögur koma fram. Við erum búin að bíða eftir nýjum tillögum um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í marga mánuði. Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði sjálfur fyrir áramót að ef hann fengi þessi mál í hendur mundi hann klára þau á þrem vikum, það væri ekki mikið tiltökumál á koma skikki á þennan málaflokk. Síðan er liðið á þriðja mánuð og í Morgunblaðinu í dag má lesa að hæstv. ráðherra boðar einhverra vikna vinnu enn. Við vitum ekkert hvernig niðurstaðan verður.

Það sama á við um rammaáætlun. Hæstv. ráðherra lagði fram málefnaskrá við þingnefnd 18. janúar, boðaði komu málsins inn í þingið 28. janúar. Nú er komið (Forseti hringir.) að lokum febrúar og málið ekki í augsýn. Afleiðingin er sú, virðulegi forseti, að atvinnuveganefnd þingsins (Forseti hringir.) er atvinnulaus. Við höfum frestað fundi á morgun vegna þess að það eru í sjálfu sér engin stór mál sem liggja fyrir atvinnuveganefnd þingsins. (Forseti hringir.) Þetta er dæmi um áherslurnar í þessu ríkisstjórnarsamstarfi.

(Forseti (ÁRJ): Enn verður forseti að biðja hv. þingmenn að virða þingsköp og þann ræðutíma sem gildir.)