fundur með sveitarstjórnarmönnum í Norðurlandi vestra.
Hæstv. forseti. Sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra hafa þegar verið virtir svars eins og hv. þingmaður kom inn á. Ég mun í dag, eftir hádegi, eiga stóran fund með fulltrúum allra landshlutasamtaka, sennilega um 40 sveitarstjórnarmönnum, þar sem við munum fara yfir mikilvægt mál sem snertir verulega hag sveitarfélaganna og landshlutasamtakanna, sem eru sóknaráætlanir. Það mun væntanlega verða góður fundur. Þar mæta líka fulltrúar Norðurlands vestra og í framhaldi af þeim fundi mun ég bjóða þeim fund til að hægt sé að nota þessa ferð og fara yfir stöðuna sérstaklega á Norðurlandi vestra.
Ég hef vissulega kynnt mér stöðuna þar, sem er fyrir margra hluta sakir slæm og verri en annars staðar. Þarna er mjög hátt hlutfall fólks bara með grunnskólapróf og atvinnuleysi hefur verið mjög mikið. Einnig hafa mörg opinber störf glatast eins og gerist og gengur í því hruni sem hefur gengið yfir þjóðina. Engu að síður hefur þeim verið boðinn fundur með embættismönnum, þeir þáðu það ekki.
Ég er með stóran fund í dag, með 44 sveitarstjórnarmönnum, og þeir munu væntanlega mæta á þann fund. Ég er að reyna að skapa mér svigrúm og tíma í dag til þess, í framhaldi af þeim fundi, að hafa sérstakan fund með fulltrúum á Norðurlandi vestra.