140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

afgreiðsla máls nr. 403 úr nefnd.

[11:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau orð sem hér féllu af hálfu síðasta hv. ræðumanns. Á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá því að Alþingi samþykkti að þetta mál fengi efnislega umfjöllun í þinginu þá hefur það komið alloft á dagskrá í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en enn hefur okkur ekki tekist að fá svör við því hvað meiri hluti þeirrar nefndar hyggst fyrir varðandi afgreiðslu þess máls. Ég hef ítrekað spurt að því en ekki fengið skýr svör þannig að ég sem nefndarmaður í nefndinni get ekki upplýst frekar um þá stöðu.

Það liggur fyrir, að því er virðist, að meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé andvígur þessu þingmáli. En hvernig hann ætlar að fara með afgreiðslu þess liggur ekki fyrir en ég minni á að í þingsköpum eru úrræði ef sú staða kemur upp að meiri hluti í þingnefnd er öðruvísi saman settur en meiri hlutinn á þingi þannig að allar slíkar leiðir hljóta að verða skoðaðar.