140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

náttúruvernd.

63. mál
[11:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Um leið og hægt er að gleðjast yfir áhuga þingmanna á að taka á því hvernig menn umgangast landið, og ég get tekið undir það, er held ég líka rétt að velta því fyrir sér hvort það huglæga mat sem lagt er á stórfelld náttúruspjöll og þau refsimörk sem hér eru sett, bæði í sektarákvæðum og fangelsum, séu í samræmi við annað. Ég held að rétt væri að réttarfarsnefnd eða fulltrúar hennar fjölluðu um það áður en við samþykktum frumvarpið.

Ég gleðst sérstaklega yfir áhuga þingmanna Samfylkingarinnar á því að setja inn sektarákvæði til að framfylgja lögum því að í máli sem hefur ítrekað komið inn í þingið er varðar lögbrot þeirra sem framleiða mjólk umfram kvóta, og þarf að setja refsiákvæði við til að þeim lögum verði framfylgt, hafa þingmenn Samfylkingarinnar einmitt staðið gegn því að setja inn slíkt refsiákvæði til að hægt sé að framfylgja lögunum með nákvæmlega sambærilegum hætti og hér er lagt til. Ég býst því við að þeir leggi fram frumvarp þess efnis fljótlega á næstu dögum. (Gripið fram í.)