140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

málefni innflytjenda.

555. mál
[14:52]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem upp öðru sinni bara til að þakka ráðherra aftur fyrir og hvetja hann til dáða í þessum efnum. Það sem hann sagði síðast er rétt, það er mjög mikilvægt að vinna skipulega og markvisst að því að útrýma fordómum og tryggja félagslega og menningarlega stöðu innflytjenda og á allan hátt að allir okkar íbúar, óháð uppruna og þjóðerni, geti verið virkir þátttakendur og látið drauma sína rætast. Það er því miður, eins og ég kom inn á, mikið áhyggjuefni hvað tölur sýna, m.a. um brottfall nemenda, að við uppfyllum það enn ekki að allir hér séu virkir þátttakendur óháð þessum þáttum.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra, sveitarfélög verða að taka á sig mikla ábyrgð í þessum efnum. Þau þurfa þá líka að hafa alla burði til þess. Skólarnir okkar sem búa við mikinn niðurskurð þurfa að hafa burði til þess að hlúa að öllum sínum börnum o.s.frv.

Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum og hlakka til að sjá fleiri mál í þessum málaflokki koma hingað inn á borð.