140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðalána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér fannst áhugavert að heyra ræðu hæstv. forsætisráðherra því tónninn var mjög skýr: Það var alger uppgjöf í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Ef einhver á að telja í þjóðina bjartsýni og kraft er ljóst að það verður ekki hæstv. forsætisráðherra. Þetta var enn ein staðfestingin á því.

Ég vil á þeim fáu mínútum sem ég hef fara aðeins yfir nokkra þætti þessa máls. Í fyrsta lagi vek ég athygli á því að hæstv. ríkisstjórn setti það í stjórnarsáttmálann að hér yrði að vera upplýst þjóðfélag, opin og gagnsæ stjórnsýsla, gleymdi að vísu að setja fyrir aftan „djók“ því að væntanlega hefur það átt að prentast.

Við vitum ekki enn, virðulegi forseti, eftir allan þennan tíma stöðuna á samningunum á milli gömlu og nýju bankanna. Við vitum ekki á hvaða virði einstaka lánaflokkar voru keyptir á milli gömlu og nýju bankanna. Af hverju vitum við það ekki? Það er vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur gert allt það sem hún hefur getað til að koma í veg fyrir að þær upplýsingar berist fyrir þing og þjóð. Ég spyr einfaldra spurninga: Væri ekki betra að við töluðum um þau mál út frá staðreyndum? Væri það ekki betra? Hver hagnast á því að við vitum ekki enn þá sannleikann í því máli? Ef einhver er að velkjast í vafa um þetta get ég upplýst þá aðila sem hafa áhuga á því hver saga fyrirspurna hefur verið í málinu.

Ég og fjölmargir aðrir hv. þingmenn hafa spurt um þessi mál í þinginu með skriflegum og munnlegum fyrirspurnum. Í ofanálag fór ég fram á að fá samningana á milli gömlu og nýju bankanna. Í hv. fjármálaráðuneyti var allt reynt til að koma í veg fyrir að ég fengi þær upplýsingar, kallaðir voru til lögfræðingar utan úr bæ og ég veit ekki hvað og hvað. Það endaði með því að ég fékk þá samninga án þeirra fylgigagna sem beðið var um, en í fylgigögnunum eru upplýsingarnar. Núna er ég að reyna að fá þessar upplýsingar og væri fróðlegt að heyra það í umræðunni frá þeim aðilum sem helst um þessi mál véla og ráða, hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, sem nú gegnir slatta af ráðherraembættum, hvort einhver von sé á því að við fáum þær upplýsingar þannig að við gætum í það minnsta rætt um þann þáttinn út frá staðreyndum.

Í öðru lagi hafa niðurfærslurnar — það er alveg sama hvaða tölur menn skoða í þeim efnum, ég held að menn séu sammála um þær tölur sem liggja fyrir um hverjar niðurfærslurnar hafa verið — ekki komið til vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar heldur vegna þess að dómstólar hafa dæmt ákveðin lán ólögleg. Nánar tiltekið hafa 150 milljarðar kr. af leiðréttingum lána komið út af endurútreikningi erlendra fasteignalána og bílalána. 150 milljarðar. Dómstólar dæmdu ákveðinn lánaflokk ólöglegan og þarna er lunginn af niðurfærslunni af lánum til heimila.

Virðulegi forseti. Eru þetta góðar fréttir? Þetta eru auðvitað góðar fréttir að því leytinu til að það er mjög gott að þessi lán skyldu verða leiðrétt. En við ræðum mikið um, og það er fullyrt í skýrslunni, að allt svigrúm bankanna, ég vek athygli á því, sé uppurið. Það er áhugavert vegna þess að þessir lánaflokkar voru keyptir sem gölluð vara. Ef menn eru búnir að fylla út í, búnir að nýta allt svigrúmið sem var til staðar í nýju bönkunum þá þýðir það að gallaða varan hafi gengið inn á hin lánin. Það bara segir sig sjálft.

Menn hafa oft rætt um vanrækslu og allra handa kenningar hafa verið um það, flestar frekar óljósar, hjá hverjum vanrækslan er. En hér erum við án nokkurs vafa að tala um skýra og klára vanrækslu hjá hæstv. ríkisstjórn þegar gengið er þannig frá samningum að keyptir eru lánaflokkar úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju án nokkurra fyrirvara. (VigH: Rétt.) Bara heimilisþátturinn er 150 milljarðar núna, og það á eftir að reikna aftur. Engir fyrirvarar. Reikningurinn varðandi heimilislánin, og þá eru fyrirtækjalánin eftir, er 150 milljarðar. (VigH: Þetta er hneyksli.) Hér erum við að tala um hreina og klára vanrækslu hjá núverandi ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra talar um að dregið hafi úr vanskilum. Ég er með upplýsingar úr vanskilaskrá og ég ætla að fara aðeins yfir það. Núna eru 26.096 einstaklingar á vanskilaskrá. Einstaklingar sem komast á vanskilaskrá eru í miklum vanskilum, í það minnsta 90 daga vanskilum. Vanalega hefur það verið þannig að farið hefur verið í innheimtuaðgerðir sem ekki hafa gengið eftir. Hvenær skyldi þetta hafa verið hærra? Aldrei. Núna hefur fjölgað frá þeim tíma sem búið var að lofa velferðarbrúnni, eða frá vorinu 2009, um 9.600 manns, tæplega 10 þús. manns. Og til að setja þetta í eitthvert samhengi eru 26.096 manns um 16% af fólki á vinnumarkaði.

Nú er það auðvitað svo að ekki er hægt að bjarga öllu. Það er ekki hægt að gera allt fyrir alla. Þegar menn skoða vanskilaskrá er augljóst að þrátt fyrir að betri tíð hafi verið í efnahagsmálum er fólk samt á vanskilaskrá þó að því hafi vissulega fækkað. Ég mundi ætla að ríkisstjórnin ætti að taka þessar tölur aðeins alvarlegar. Ég held að ekki sé góð leið að segja þegar fólksflótti er úr landinu, þegar lágt atvinnustig er, að staðan sé eitthvað allt öðruvísi. Ég held að það sé heldur ekki góð leið, virðulegi forseti, að koma hingað og segja að dregið hafi úr vanskilum þegar aldrei fleiri hafa verið á vanskilaskrá. Það getur hver sem er fengið þær upplýsingar frá þeim fyrirtækjum sem um þessi mál fjalla.

Fyrir síðustu kosningar lofuðu Samfylkingin og Vinstri grænir velferðarbrú. Og þeir lofuðu öllu fögru. Það hefur einfaldlega ekki gengið eftir. Leiðréttingin á lánunum hefur komið til vegna þess að lán voru ólögleg. Það er auðvitað gott fyrir það fólk og þau fyrirtæki sem tóku þessi ólöglegu lán en það kemur þá væntanlega — við vitum það ekki vegna þess að við fáum ekki upplýsingar um það — niður á því fólki sem var með annars konar lán og fær ekki leiðréttingar á þeim lánum.

Virðulegi forseti. Hægt er að fara ýmsar leiðir í þessum málum til að laga hlut þeirra sem um er að ræða. Fyrst mundi ég ætla að gott væri að fá upplýsingar þannig að við vissum um hvað við værum að tala, og við munum kalla áfram eftir því. Ég held að skynsamlegt væri að samþykkja svokallað lyklafrumvarp, í það minnsta í einhvern tíma, til að styrkja stöðu skuldara sem berjast við lánastofnanir. Ég held að það sé alveg hægt að réttlæta það miðað við þá stöðu sem er í gangi núna. Ég held einnig að skynsamlegt sé að skoða þetta í samhengi við lífeyrissjóðina af mörgum ástæðum. Kannski eru einhver sóknarfæri í því, virðulegi forseti, sem betur fer er aldur landsmanna að lengjast. (Forseti hringir.) Ég mun við annað tækifæri ræða þær hugmyndir betur. En ég held að versta leiðin í þessu sé að neita að horfast í augu við vandann (Forseti hringir.) því að þá er alveg öruggt að menn munu ekki taka á honum.