140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

uppgjör gengistryggðra lána.

[15:11]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta voru allmargar spurningar. Í fyrsta lagi verð ég að gera athugasemd við þann málflutning hv. þingmanns að lögin í desember hafi lögfest eitthvað afturvirkt sem Hæstiréttur hafi hafnað. Það er rangt. Hv. þingmaður verður að lesa aftur dóminn og ég hvet hann líka til að lesa álit lögmanna sem nú liggur orðið fyrir frá lögmannsstofunni Lex. Þar kemur algerlega skýrt fram að lögin í desember voru ekki dæmd ólögleg gagnvart stjórnarskrá eða neinu öðru. Þvert á móti hefur Hæstiréttur ítrekað í dómum staðfest meginefni þeirra laga að endurútreikningur vaxta skuli vera á grunni vaxta Seðlabankans, en dómurinn gengur út á að skilgreina tiltekna undanþágu, að í þeim tilvikum sem menn hafa fullnaðarkvittanir í höndum skuli þeir samt njóta lágu vaxtanna. Það er ekki maklegt að bera Alþingi og stjórnvöldum það á brýn sem hv. þingmaður gerði hér, að í því hafi verið falið sérstakt tómlæti eða skeytingarleysi gagnvart hagsmunum lántakenda. Þvert á móti liggur fyrir að þessi lög auðvelduðu geysilega úrvinnslu hins fyrri gjaldeyrisdóms og færðu tugþúsundum miklar réttarbætur. Það liggur fyrir. Það var alltaf tekið skýrt fram að ef menn kynnu að eiga ríkari rétt, eins og nú hefur verið dæmt í þessum tilvikum, væri hann til staðar. Það er það sem Hæstiréttur segir eðlilega, hann verður ekki tekinn af mönnum ef hann er stjórnarskrárvarinn eða er ríkari á grundvelli kröfuréttarins með almennum lögum. Það hefur engum dottið í hug og það stóð aldrei til.

Mér finnst miður að hv. þingmaður, áhugasamur og velviljaður sem hann er um þessi mál, skuli nálgast málið með þessum neikvæða hætti. Það er ekki sanngjarnt. Alþingi var að reyna að finna hversu langt það gat gengið í desember 2010 til að færa mönnum þær réttarbætur sem talið var að stætt væri á. Það var gert og það gagnaðist tugþúsundum og á þeim grunni hafa þeir fengið (Forseti hringir.) sinn endurútreikning.