140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

eignarhald ríkisins á fyrirtækjum.

427. mál
[16:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að koma fram með þessa mikilvægu spurningu um eignarhald ríkisins á fyrirtækjum því að vonandi viljum við flest í framtíðinni byggja upp markaðsþjóðfélag en ekki þjóðfélag sem byggir á umfangsmiklum afskiptum ríkisins af fyrirtækjarekstri í landinu. Ég vona alla vega að það sé framtíðarsýn mín og hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra nefndi sparisjóðina sem eru mikilvægar fjármálastofnanir í landinu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hún orðaði sparisjóðina sérstaklega, hvað líði aðgerðum til þess að tryggja viðgang og vöxt sparisjóðanna í landinu. Það er nefnd að störfum innan fjármálaráðuneytisins. Hver er framtíðarsýn hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) þegar kemur að sparisjóðunum í landinu?