140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

fjar- og dreifkennsla.

431. mál
[16:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir þakkir vegna þessarar umræðu sem mér finnst mjög jákvæð. Mér finnst reyndar dálítið undarlegt að hæstv. fjármálaráðherra sé spurður um menntamál. Það heyrir undir hæstv. menntamálaráðherra, en umræðan er engu að síður góð.

Það sem ég sakna er umræðan um fjármögnun kennslugagna. Við vitum af net- og tölvuvæðingunni í landinu. Það væri möguleiki að byggja upp mjög fróðlegt og skemmtilegt námsefni með réttari hönnun tölvugagna sem gæti svo nýst nemendum í fjar- og dreifkennslu. Þar væri hægt að nýta bestu kennara landsins til að búa til námsefni sem gæti svo gagnast mörgum öðrum kennurum og mörgum öðrum nemendum í gegnum netið.

Ég vil kannski víkka umræðuna út með því að spyrja hvort fjármálaráðherra hafi hugmyndir um að leggja meiri áherslu á námsgögnin.