140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

fjar- og dreifkennsla.

431. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir hennar svör og öðrum þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni.

Ég hafði í nokkrum tilfellum borið upp spurningar til hæstv. menntamálaráðherra varðandi fjar- og dreifnám, en taldi hins vegar ástæðu til að ræða sérstaklega kjarasamninga við fjármálaráðherra sem fer með starfsmannamálin á vegum ríkisins.

En ráðherrann fer líka með stjórn fjármála ríkisins. Eins og ég benti á má jafnvel færa rök fyrir því að þær ákvarðanir sem teknar hafa verið varðandi fjar- og dreifnám hafi stangast á við stefnumörkun stjórnvalda hvað varðar fjármálin.

Í fyrsta lagi hefur þessi ríkisstjórn fyrst og fremst verið að fást við erfiða fjárhagsstöðu ríkisins, verið að reyna að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum. Hér hefur verið bent á að farið hefur verið í niðurskurð á námi sem er ódýrara, sem er hagkvæmara. Ríkisstjórnin hefur líka kynnt svokallaða kynjaða hagstjórn, hvernig ákvarðanir ríkisins um ráðstöfun fjármála hefur áhrif á kynin.

Í fyrirspurnum mínum til menntamálaráðherra hefur einmitt verið sýnt fram á að niðurskurður í fjar- og dreifnámi hefur komið mun verr við konur en karla. Þetta hefur því stangast á við tvö meginmarkmið þessarar ríkisstjórnar varðandi fjármálin.

Þegar menntavísindasvið, sem hefur verið gífurlegur frumkvöðull í uppbyggingu fjar- og dreifnáms hér á Íslandi, stóð frammi fyrir því að þurfa að hagræða í rekstri sínum varð niðurstaðan sú að þeir eru nánast hættir að bjóða upp á staðnám, þannig að allt nám hjá þeim er orðið fjar- eða dreifnám.

Ég tek undir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði hér að það er mikilvægt, þrátt fyrir þá erfiðleika sem við höfum átt við að glíma, að við vinnum áfram með þá hugmyndafræði sem bjó að baki grunnskólalögunum, framhaldsskólalögunum og líka í sambandi við háskólana (Forseti hringir.) — stytta nám og auka sveigjanleika. Það gerum við í gegnum (Forseti hringir.) fjar- og dreifnám.

(Forseti (UBK): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)