140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

opinn aðgangur að afrakstri fræðistarfa.

534. mál
[19:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég varð eiginlega sveittur um ennið að hlusta á ráðherrann en þakka henni kærlega fyrir svörin. Ég á eftir að melta þetta síðar þegar ég geng að því á netinu í Alþingistíðindum sem þar birtast (Menntmrh.: Í opnu aðgengi.) í opnu aðgengi án kostnaðar fyrir almenning. Við höfum alla vega tekið upp opinn aðgang á þinginu, sem ekki var áður því að Alþingistíðindi voru seld, það var þannig, en fólk gat auðvitað mætt á pallana þannig að það var opinn aðgangur að nokkru leyti.

Forseti. Fyrirgefið, maður fer á flug þegar um þetta er að ræða.

Svarið er samt sem áður það að stefnumótun Rannsóknamiðstöðvar Íslands er óljós og engin niðurstaða af henni enn þá. Hvað eigum við að gefa Rannsóknamiðstöð Íslands langan tíma? Nú er liðið mjög á febrúar, eigum við ekki að gefa henni kannski fram að lokum sumarfría í ágúst til september til að gera þetta? Það er ekki verið að spinna úr engu því að svipaðar stofnanir í grannlöndum okkar hafa þegar gert þetta. Njörður Sigurjónsson, Bifrastarkennari, skrifaði grein í Fréttablaðið fyrir nokkrum dögum og minnist þar meðal annars á Vetenskapsrådet í Svíþjóð sem mun vera mjög lík stofnun og Rannsóknamiðstöð Íslands sem kölluð er Rannís í slangurmáli. Þar eru þessar reglur þegar fyrir hendi og okkur ætti ekki að vera vandara um en Svíum. Reyndar hafa starfsmenn Háskólans á Bifröst — ég man ekki hvort ráðherrann nefndi það — samþykkt að birta fræðigreinar sínar í opnum aðgangi og það er fyrsti skólinn sem verður til þess.

Ég vona að starf ráðherrans og áhugi á þessu máli, sem ég efast ekki um, verði til þess að aðrir háskólar fylgi í kjölfarið og að lokum komi Rannsóknamiðstöð Íslands sjálf (Forseti hringir.) og setji sér reglur og stefnu í þessu efni.