140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

stefna í geðverndarmálum.

434. mál
[19:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svör hans. Ég efast ekki um að við séum að gera margt mun betur í dag en við gerðum fyrir nokkrum árum eða áratugum. Hins vegar virðist það ekki breyta sérstaklega miklu, vandinn virðist stöðugt stækka og það á bæði við á heimsvísu og hér eins og þær tölur sem ég var að benda á sýna um aukningu hlutfalls þeirra sem verða öryrkjar út af geðsjúkdómum eða geðröskunum. Í þeirri heilbrigðisáætlun sem er nú í gildi var eitt af grundvallarmarkmiðunum undir markmiðum um geðheilbrigði að reyna að draga úr tíðni sjálfsvíga. En það kemur fram í skýrslunni sem kom núna, lokaskýrslu 2011, að markmiðið náðist ekki, menn töldu að jafnvel þó að ekki hafi dregið úr þeim metnaði sem var þarna undirliggjandi fyrir verkefninu hafi það samt ekki náðst.

Við horfum líka á tölur sem okkur berast inn í þingið um sífellt aukna notkun tauga- og geðlyfja. Ef það sem verið er að gera í dag virðist ekki virka nægilega vel, hvað nákvæmlega getum við þá gert öðruvísi? Ég kalla í rauninni eftir því að geðheilbrigði verði ekki bara hluti af heilbrigðisáætluninni heldur að við komum fram með mjög skýra geðverndarstefnu um hvernig við getum tryggt sem besta geðheilsu öllu samfélaginu til heilla. Þetta er kostnaður og hann felst ekki aðeins í peningum, heldur felst hann í gífurlegri vanlíðan hjá viðkomandi einstaklingi og líka í hans nánasta umhverfi. Þetta hefur ekki aðeins áhrif á þann sem þjáist af sjúkdómnum heldur líka á alla hans nánustu.