140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem skapast hefur um meint afskipti ákveðinna þingmanna af mótmælum við Alþingi og á Austurvelli hafa vaknað nokkrar spurningar. Maður spyr sig eðlilega, virðulegi forseti, af hverju tveir hv. þingmenn, hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, bera á yfirlögregluþjóninn Geir Jón Þórisson ásakanir um dylgjur og pólitískar ofsóknir í sinn garð. Yfirlögregluþjónninn gerði ekki annað en svara sannleikanum samkvæmt spurningum þáttastjórnanda í þessu tilfelli og nefndi þar engin nöfn.

Maður spyr sig, virðulegi forseti, af hverju hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon segir að ef þessi umræða vaði uppi verði að rannsaka allt, einnig mótmæli sem síðar urðu. Er það ekki bara sjálfsagt mál?

Margt sem gerðist þessa daga vakti upp spurningar. Hvernig stóð á því að hópur mótmælenda fór og teppti innkeyrslu í bílageymslu þingsins á sama tíma og verið var að færa þá þangað sem handteknir voru? Maður spyr sig um ummæli hv. þingmanns á göngunum, um að lögreglan gangi hart fram í því að verja Alþingi, og að í lagi væri að mótmælendur færu um Alþingishúsið, brytu allt og brömluðu. Þetta eru hvort eð er allt dauðir hlutir, sagði viðkomandi þingmaður. (ÁI: Hættu þessu ...) Þetta voru ummæli hv. þingmanns. (ÁI: Hættu þessum lygum.) Eru þetta ummæli sem eru til þess fallin að draga úr mótmælum eða hvetja til þeirra, virðulegi forseti? (ÁI: Hættu þessum lygum, Jón Gunnarsson.) Maður spyr sig hvort ummæli sem þingmenn létu falla við lögreglumenn vegna veru þeirra í Alþingishúsinu hafi verið eðlileg. Þau voru alla vega þess eðlis að mörgum lögreglumanninum bauð það helst að hverfa af vettvangi.

Maður spyr sig, virðulegi forseti: Af hverju fær tillaga framsóknarmanna, um rannsóknir Alþingis á þessu máli, ekki framgang í þinginu? (Gripið fram í: Þetta er fáránlegt.) Er ekki tímabært að hreinsa andrúmsloftið í þessu máli, láta sannleikann koma í ljós? Það má ráða af viðbrögðum margra hv. þingmanna í þessu máli, (Forseti hringir.) þegar það kemur til umræðu, að sannleikanum verður kannski hver sárreiðastur.