140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði í máli hv. þingmanns sem væri ástæða til að gera athugasemdir við en ég mun geyma mest af því þar til kemur að ræðu minni á eftir. Ég ætla hins vegar að spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um tiltekin afmörkuð atriði.

Í fyrsta lagi vildi ég taka fram að það er auðvitað nokkur breyting frá fyrri umræðu að nú er það almennt viðurkennt að Alþingi hafi heimild til að afturkalla ákæruna. Það er ekki hægt að lesa annað út úr nefndarálitinu en að Alþingi hafi heimild til þess að afturkalla ákæruna. Ég sé ekki annað og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir getur væntanlega staðfest að það er ekkert í lögum sem hindrar Alþingi í að afturkalla ákæruna. Þá stendur eftir hvort Alþingi eigi að gera það, hvort þingmenn meti það svo að það eigi að gera það. Þar geta skoðanir verið skiptar og fyrir afstöðu manna geta verið mismunandi ástæður, málefnalegar ástæður sem þeir hljóta að færa fram hver fyrir sig. Ég hafna því hins vegar að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir afgreiði öll þau rök sem komið hafa fram í málinu með því að það séu ekki málefnalegar ástæður. Ég hafna því sjónarmiði.

Ég ætlaði að spyrja um eitt konkret atriði, hæstv. forseti, það sem segir í niðurlagi nefndarálitsins um varðveislu gagna. Getur hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir staðfest það sem kom fram hjá Páli Þórhallssyni á fundi nefndarinnar, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, að að því er virðist væru öll þau gögn eða langflest sem lögð eru fram í málinu opinber gögn sem sæta ákvæðum upplýsingalaga og eru opin fyrir almenning samkvæmt þeim? Þannig gæti almenningur kallað eftir þeim (Forseti hringir.) á þeim grundvelli þótt það væri ekki hægt á grundvelli þess að það væru gögn í sakamáli.