140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram í upphafi máls míns að ég er ekki framsögumaður Framsóknarflokksins í þessu máli, ég kem hér bara og útskýri mitt mál frá mínu sjónarhorni. Það var þannig og hefur komið fram í þessu máli áður að hver og einn þingmaður Framsóknarflokksins, eins og reyndar hver þingmaður í þessum sal, þarf að gera þetta upp við sjálfan sig og sína samvisku.

Ég ætla að fara í smáaðdraganda að málinu. Áður en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út á sínum tíma vorið 2010 fór þingmannanefnd, sem Alþingi skipaði til að vinna úr rannsóknarskýrslunni, mjög vel yfir öll álitamál og komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að ráðherraábyrgðarlögin og landsdómslögin haldi vel og séu í fullu gildi þó svo að þar megi og þurfi að breyta ýmsu í framtíðinni. Var þar farið yfir tæknileg atriði og reynt að vinna undirbúningsvinnu.

Við tókum einnig þann tíma til að fara yfir hvað við ættum í vændum og við hefðum kannski líka getað nýtt tímann betur til að ræða hvort aðrar leiðir séu til pólitískra viðbragða hvað varðar ráðherraábyrgð og ábyrgð ráðherra. Víða á Norðurlöndum eru slíkar leiðir til til að koma fram pólitískri ábyrgð á hendur ráðherrum. Sú hefð er því miður ekki fyrir hendi hér á landi.

Það var himinn og haf á milli álita okkar þingmanna í þingmannanefndinni á sínum tíma um hvort við gætum tekið undir niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis, hvort um vanrækslu ráðherra væri að ræða. Það var því miður algerlega ófært að enda umræðu um ráðherraábyrgð á sameiginlegan samfélagslegan hátt, t.d. með einhvers konar vandlætingu á störfum viðkomandi ráðherra þótt það væri bæði skynsamlegt og æskilegt. Sá sem hér stendur sér einna mest eftir því á þessum tímapunkti og eins í störfum þingmannanefndarinnar að hafa ekki beitt sér meira og reynt að beina sjónum nefndarinnar inn á þessa braut. Ég held að það hefði skilað okkur betri niðurstöðu en þeirri sem við stöndum frammi fyrir í dag. Því miður var engin eining í samfélagi okkar og er því miður ekki enn og þess vegna var sú leið ófær á þeim tíma. Auðvitað er það svo þegar menn vilja ekki viðurkenna nokkra ábyrgð, að hvorki ráðherrar né flokksmenn sínir hafi gert mistök, þá er erfiðara að taka á svona málum ef þetta fer í flokkspólitískt ferli. Það þurfa allir að geta horft aftur fyrir sig og sagt: Þessir ráðherrar gerðu mistök þó svo að þeir hafi verið í mínum flokki og þeir bera ábyrgð á því. En þessum dýrmæta tíma var eytt og er því miður enn eytt í hefðbundið karp í samfélaginu, heiftuga persónulega gagnrýni, skotgrafir þar sem engin gefur neitt eftir.

Umræða um einkavæðinguna í gær til að mynda var dæmi um þroskaleysi umræðunnar í samfélaginu í hnotskurn. Við kunnum sem sagt ekki að ljúka neinum málum. Í september 2010 var það niðurstaða mín að við hefðum ekkert val, það væri engin önnur leið, það væri engin sátt í samfélaginu í þinginu um leiðir, dómstólaleiðin væri ein eftir. Að þeirri niðurstöðu komst ég eftir vandlega yfirlegu og mikla vinnu. Ég taldi að draga skyldi fjóra fyrrverandi ráðherra fyrir landsdóm og þar yrði farið yfir þeirra mál.

Að mati rannsóknarskýrslu Alþingis, sem þingmannanefndin fjallaði um, höfðu fleiri brugðist. Framkvæmdarvaldið, stjórnsýslan, er harðlega gagnrýnd í þeirri skýrslu og við megum ekki gleyma því. Bæði verklag og vinnubrögð eru átalin. Þar bera margir ábyrgð. Mesta ábyrgð bera þeir ráðherrar sem málefni banka, fjármál og efnahagsmál heyrðu undir en allir ráðherrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks frá 2007–2009 bera pólitíska ábyrgð sem og þeir ráðherrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem fóru með málefni banka, fjármál og efnahagsmál á míníkrísuárunum 2006 og 2007. Ég nefni þetta sérstaklega og að þetta heyri þá í raun og veru undir þá ráðherra til að mynda Samfylkingarinnar í dag sem enn eru ráðherrar. Það hefði verið hægt að fjalla um þetta í þessu ferli og það hefði kannski líka verið tækifæri fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þegar hún fékk þetta mál aftur inn núna, að taka þetta mál upp í heild sinni en horfa ekki bara á þennan eina þátt. Það hefði verið mitt tækifæri að taka þetta mál upp á þessum forsendum því að við ætlum að reyna að læra af þessu, við ætlum að reyna að móta hér nýja hefð um hvernig við tökum á málum. Fyrir því hef ég alla vega talað og haldið að væri kannski mikilvægasti þátturinn í þessu.

Við þurfum að hafa formlegan vettvang og hefð fyrir því hvernig við komum pólitískri ábyrgð á hendur ráðherrum, hvort sem um er að ræða óformlega eða formlega gagnrýni, tiltal eða ávítur með einhverjum alvarlegum hætti. Um það með hvaða hætti við getum tekið slíkt upp vísa ég og hef gert áður í ræðustól Alþingis í ágæta grein Ragnhildar Helgadóttur, prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í Tímariti lögfræðinga frá haustinu 2009, um pólitíska ábyrgð og þingræði. Ég ítreka þá skoðun mína að við þurfum að finna slíkan vettvang, slíkt form sem tekur á pólitískri ábyrgð með sambærilegum hætti og við þekkjum annars staðar á Norðurlöndum og reyndar víðar.

Frú forseti. Hinn 28. september 2010 voru greidd atkvæði á Alþingi um þingsályktunartillögu meiri hluta þingmannanefndarinnar um málshöfðun gegn fjórum ráðherrum eins og ég lýsti áður og ég var aðili að þeim meiri hluta. Hér var um að ræða að mínu mati eina heildstæða tillögu meiri hluta nefndarinnar um að kæra fjóra ráðherra og eins og ég hef farið yfir hefði ég viljað sjá að pólitískri ábyrgð yrði beitt á stærri hóp ráðherra en þá fjóra með einum eða öðrum hætti.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni, gerði það við fyrri umr. um þetta mál og reyndar líka fyrr, árið 2010, að ég teldi að annaðhvort ætti að ákæra fjóra eða engan úr því að það varð ferlið sem við náðum þessu máli í, við náðum þessu ekki í einhverja pólitíska ábyrgðarumræðu og hvernig hægt væru að taka hana. Þess vegna voru engar aðrar leiðir á þessum tíma en landsdómsleiðin. Það var niðurstaðan.

Frú forseti. Ég vil koma því að, eins og ég lýsti í stuttri ræðu við fyrri umr. þessa máls og hef sagt það áður, að ég tel að atkvæðagreiðslan þann 28. september 2010 hafi breytt í pólitískan skrípaleik hinni vönduðu vinnu okkar sem stóðum að meirihlutaálitinu í þingmannanefndinni þar sem ég ásamt meiri hlutanum komst að þeirri niðurstöðu að ákæra ætti alla fjóra ráðherrana. Við það er erfitt að sætta sig og er að mínu mati óásættanlegt. Niðurstaða mín er því sú að það sé bæði rangt, ósanngjarnt og óréttlátt að draga einn ráðherra fyrir landsdóm án þess að tekið hafi verið á öllum öðrum ráðherrum og ábyrgð þeirra með viðeigandi hætti. Mér fannst því með þingsályktunartillögu þessari frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að Alþingi hefði fengið nýtt tækifæri til að taka málið í heild upp. Það var ekki gert og hér er komin tillaga um að vísa málinu frá. Ég tel það miður að það hafi ekki verið gert. Ég mun því greiða atkvæði gegn frávísun og með afturköllun þeirrar ákæru sem hér er.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls tekur hver og einn þingmaður sína ákvörðun og á við sína samvisku og sitt mat á aðstæðum. Það á ekki við að velta því fyrir sér hvort meiri hluti eða minni hluti sé í málinu, hver og einn þingmaður á að taka ákvörðun byggða á sinni samvisku, sinni sannfæringu og sínu mati á aðstæðum.