140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:21]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að upplifa í þessari umræðu um landsdómsmálið og í aðdraganda hennar síðustu sólarhringa hvernig hlutir eru svolítið settir á hvolf, eða þannig horfir það að minnsta kosti við mér. Það hefur verið áberandi í ummælum forustumanna Sjálfstæðisflokksins sérstaklega, bæði talsmanna úr stjórnlaganefnd og formanns flokksins, að þingið hafi tekið þetta mál fyrir og það hafi verið lagt fram af hálfu meiri hluta nefndarinnar án þess að neitt efnislegt sé í því. Hér sé engin efnisleg umræða um málið og það sé ótækt að Alþingi taki málið til afgreiðslu á þeim forsendum.

Þegar það liggur fyrir að tillögunni var í janúarmánuði vísað til efnislegrar umfjöllunar til stjórnlaga- og eftirlitsnefndar, og hefur fengið þar gríðarlega mikla og ítarlega yfirferð, liggur fyrir efnisleg niðurstaða úr þeirri vinnu og nefndarálit meiri hlutans og 1. minni hluta byggir algerlega á efnislegum forsendum. Á sama tíma koma upp í umræðunni fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem átelja meiri hluta nefndarinnar fyrir að setja ekki málin fram með efnislegum hætti og lýsa því yfir að þeirra lykiláhersla í þessu máli sé að leiða í ljós hvort hér sé breyttur meiri hluti í málinu eða ekki frá því að málið var afgreitt í september 2010. Ég bara spyr: Hvaða efnislegu forsendur eru í þeim málflutningi? Sá málflutningur byggir ekki á neinum efnislegum forsendum.

Stjórnlaga- og eftirlitsnefnd hefur eins og ég nefndi áðan farið ítarlega yfir þetta mál eftir að Alþingi samþykkti að taka það til þinglegrar meðferðar. Það hefur komið skýrt fram í umræðunum og við þekkjum það frá því að málið var á dagskrá í janúar. Það voru mjög skiptar skoðanir um það hvort málið ætti yfir höfuð að fara í þá meðferð. Sú varð niðurstaða þingsins og málið hefur farið þann veg sem vera ber, þ.e. í ítarlega málefnalega umfjöllun. Fjallað hefur verið um heimildir Alþingis til að koma að máli sem þessu, málsmeðferðarreglur og efnisleg skilyrði fyrir afturköllun, vanhæfismál, mismun á því hvað sé annars vegar afturköllun og niðurfelling, meðferð málsgagna og stöðu málsins eins og hún mun hugsanlega blasa við eftir að það hefur verið afgreitt á Alþingi sem verður væntanlega við atkvæðagreiðslu á morgun.

Ég ætla ekki að endurtaka mikið af þeirri umræðu sem hefur farið fram og ítarlega hefur verið farið yfir í máli talsmanna meiri hluta nefndarinnar, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, og nefndarálits sem hv. þm. Magnús Norðdahl gerði grein fyrir í ítarlegu máli, heldur vík ég fyrst og fremst að þeim þáttum sem hafa verið lykilatriðið í umfjöllun nefndarinnar og snúa að hinum efnislegu skilyrðum og forsendum fyrir því að horfa til þessarar tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar um afturköllun málsins.

Það liggur alveg skýrt fyrir að skilyrðin fyrir því að hægt sé að afturkalla mál eru byggð á þeim sömu forsendum og í almennum sakamálum til fyllingar lögum um landsdóm. Það eru heimildir til að breyta og auka við ákæru eða falla frá saksókn en til að svo megi verða verður það að byggja á málefnalegum sjónarmiðum ef saksókn skal felld niður. Skilyrðin fyrir afturköllun á niðurfellingu byggja á breyttum efnislegum ástæðum.

Eins og ítrekað hefur komið fram í umræðunni hafa í starfi stjórnlaganefndar og í máli saksóknara fyrir landsdómi og aðstoðarsaksóknara engin ný gögn borist og engar nýjar upplýsingar hafa komið fram sem kalla á breytingar á afturköllun ákæru. Ekkert í málinu hefur breyst efnislega frá því að Alþingi samþykkti að vísa því til landsdóms.

Hér hefur verið tekist á um það í umræðunni hvort forræði þessa máls eigi að vera í höndum þingsins sem ákæranda eða í höndum saksóknara. Það kemur alveg skýrt fram í nefndaráliti meiri hlutans og er okkar mat að það sé ekki staða eða hlutverk Alþingis að grípa inn í dómsmál sem er komið í þann farveg sem blasir við. Það breytir því hins vegar ekki að upp geti komið þær aðstæður að gera þurfi breytingar á málssókninni, annaðhvort með því að afturkalla ákæru og birta þá hugsanlega nýja á breyttum grunni út frá breyttum aðstæðum, eins og við höfum dæmi fyrir úr öðrum sakamálum, eða þá að menn standi frammi fyrir því að taka ákvörðun um niðurfellingu máls þar sem upplýst sé í málsmeðferð að ekki séu lengur efni og aðstæður til að fylgja máli frekar eftir.

Eins og ég nefndi áðan þá hefur legið alveg skýrt fyrir í yfirferð okkar í stjórnlaganefnd að engar þær aðstæður eða efni hafi komið fram sem kalla á slíkt enda liggur ljóst fyrir að það væri saksóknara að koma með ábendingar um slíkt til þeirrar sérstöku samstarfsnefndar sem skipuð var af þinginu til að vinna með saksóknurum til stuðnings og aðhalds í þessu máli og Alþingi hefði þá þær óskir í höndum til að fjalla um og taka afstöðu til, enda byggðu þær á málefnalegum forsendum.

Lykilatriði málsins eru samt þessi: Engar efnislegar breytingar hafa komið fram í þessu máli af hálfu þeirra sem með höndla. Málið er í höndum saksóknara og það er hans að segja til um breytta stöðu í málinu og hans álit og niðurstaða liggur fyrir í þeim efnum.

Þá má spyrja eftir þá yfirferð sem málið hefur fengið í nær tvo mánuði í stjórnlaganefnd: Hafa engar nýjar upplýsingar komið fram í þessu máli? Jú.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til þingmannsins að tala um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það mál er til umræðu.)

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ég skal virða það, ágæti forseti.

Það hafa komið fram nýjar upplýsingar í meðferð nefndarinnar. Annars vegar það sem hér hefur verið rætt nokkuð, að ef málið verður afturkallað eða fellt niður verði málsskjöl lokuð almenningi í allt að 30–80 ár. Hér var gert að umræðuefni að þau málsskjöl yrðu aðgengileg með vísan til upplýsingalaga, en það er hálfsannleikur vegna þess að annars vegar liggur fyrir að málsskjölin verða ekki aðgengileg með þeim hætti sem annars væri ef málið gengi sinn veg og málsmeðferð hæfist eins og stefnt er að, þann 5. mars næstkomandi, og hins vegar liggur fyrir og hefur verið upplýst að umtalsvert af nýjum gögnum og málsskjölum eru kominn inn í málið og hafa sérlega verið dregin fram að ósk saksóknara í undirbúningi þessa máls. Það er ljóst að almenningur mun ekki hafa sömu aðstöðu og sama aðgang að þessum gögnum og annars væri. Þetta er atriði sem kom skýrt fram við yfirferð nefndar.

Í annan stað liggur það fyrir að málinu er engan veginn lokið þrátt fyrir að tillaga um afturköllun verði samþykkt. Það voru að minnsta kosti ný sannindi fyrir mér og ýmsum öðrum sem fjölluðu um málið í nefnd. Það verður opið í allt að þrjá til sex mánuði til frekari aðkomu Alþingis.

Það má auðvitað horfa til þess með vísun til þeirrar umræðu sem hefur verið hér að ástæða sé fyrir Alþingi að taka þá tillögu sem hér liggur fyrir til umræðu og afgreiðslu þrátt fyrir að engar efnislegar breytingar hafi orðið í málinu eða neitt slíkt liggi fyrir því að rétt sé að kanna hug meiri hluta þingsins vegna þess að þær hugmyndir séu uppi, og það liggi hugsanlega fyrir, að breyting hafi orðið á meirihlutavilja þingsins. Með sama hætti væri hægt að halda áfram næstu mánuði og fram á komandi haust að leita eftir vilja þingsins í þessu sama máli og málinu væri þá engan veginn lokið. Sú breytta staða getur komið upp, eins og menn vilja vísa til, að nýir þingmenn breyti einhverju um meiri hluta þingsins í þessu máli líkt og hefur sannarlega gerst frá því að þingið fjallaði um og afgreiddi málið í september 2010 fram til dagsins í dag. Hér gæti líka komið algerlega nýtt þing eftir kosningar sem yrðu haldnar einhvern tíma á vordögum þannig að það mundi auðvitað gerbreyta stöðunni. Menn geta elst við það nánast út í hið óendanlega að leita sífellt eftir nýrri meirihlutaskipan í þinginu til þessa máls.

Það er því ekki að ástæðulausu að þeir lögmenn og sérfræðingar sem fjölluðu vísast um málið á sinni tíð hafi lagt það fyrir með þeim hætti í lögskýringum sínum að eftir að búið væri að vísa málinu til landsdóms væri það úr höndum Alþingis. Menn hafa séð fyrir sér að að öðru leyti væri hægt að velta málinu aftur á bak og áfram nánast út í hið óendanlega.

Ég tel rétt að draga þessi tvö lykilatriði fram í umræðunni, annars vegar það sem mun blasa við verði málið afturkallað gagnvart aðgengi að upplýsingum og gögnum sem dregin hafa verið fram í málinu, þ.e. almenningur mun ekki hafa sama aðgang og sömu stöðu til að komast í þau gögn og ella, og hins vegar að málinu lýkur engan veginn fyrr en hugsanlega á haustdögum, jafnvel þó að afturköllun verði samþykkt. Þetta eru að mínu mati atriði sem er rétt að menn hafi í huga.

Ég ítreka það sem ég nefndi áðan að í því nefndaráliti sem lagt hefur verið fram fyrir afstöðu meiri hluta nefndarinnar er byggt á efnislegum atriðum sem eru forsenda fyrir því að leggjast gegn þeirri tillögu sem hér er flutt og meiri hlutinn leggur fram frávísunartillögu.