140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gerir það sem svo oft má búast við af honum, hann fer niður á ákveðið plan sem ég kæri mig ekki um að takast á við hann á. Hv. þingmaður upplýsti bæði í þessari ræðu og hinni fyrri að hann liti á ákæruna sem uppgjör við hrunið, að hún væri uppgjör við einkavæðingu bankanna, að hann teldi mikilvægt að saksóknin færi fram og að málshöfðunin ætti sér stað, málflutningurinn fyrir landsdómi, til að komast í einhver skjöl og gögn sem ég hef engar upplýsingar um hver eru. Það flettir ofan af hvatanum sem drifið hefur hv. þingmann áfram. Hann fer fram á málsókn á röngum forsendum. Það er ekki ákært fyrir einkavæðingu bankanna í þessu máli, tilgreindir eru fjórir afmarkaðir ákæruliðir og um þá snýst þetta mál, það snýst ekki um öll þau atriði sem hv. þingmaður romsaði út úr sér sem hann vill að málið snúist um í raun og veru. Ef það er ekki vitnisburður um í hvers konar ógöngur Alþingi er komið með því að höfða sakamál á hendur mönnum til refsingar og til fangelsisvistar á svona forsendum þá veit ég ekki hvað.

Það er nákvæmlega þetta sem menn ræddu hér um árið 1962 og 1963 þegar landsdómslögin og ráðherraábyrgðarlögin voru til umræðu á þinginu, að hætta væri á því að forsendur eins og þær hv. þm. Mörður Árnason tiltók í sínu stutta máli yrðu lagðar til grundvallar ákæru yfir mönnum, yfir fyrrverandi ráðherrum, yfir pólitískum andstæðingum, var sérstaklega nefnt. Allt kemur það fram í málflutningi eins og við höfum heyrt hjá hv. þingmanni í umræðunni. Það er óendanlega dapurlegt fyrir þingið, fyrir þjóðina, fyrir allt það sem við stöndum hér fyrir og eigum sameiginlega að standa vörð (Forseti hringir.) um.