140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:18]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er reyndar í miklum minni hluta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd með þá skoðun sína að þingið geti ekki tekið þessa ákvörðun. Meiri hluti nefndarinnar var þeirrar skoðunar, 2. minni hluti var jafnframt sömu skoðunar. En það sem stendur upp úr eftir þessa umræðu, eins og ég horfi á hana, er sú staðreynd að nú styttist í að málsmeðferðin fari fram fyrir landsdómi og þá blasir við, eftir umræðurnar á þinginu og allt sem sagt hefur verið frá því að tillagan kom fram, að meiri hluti þingmanna er líklega ekki á þeirri skoðun að sakborningurinn hafi unnið neitt til saka, hann sé saklaus. Eins og ég vitnaði til hæstv. forsætisráðherra: Það er ekkert tilefni til málshöfðunarinnar.

Þá fer þetta mál að sjálfsögðu að snúast um aðra hluti en einhver tæknileg atriði, um hvort þingið geti þetta eða hitt. Þá fer þetta að snúast um miklu stærri mál en það. Það fer til dæmis að snúast um þau grundvallarmannréttindi sem ég vék hér að. Það fer líka að snúast um heildarrökin fyrir því að málshöfðuninni sé haldið áfram yfir höfuð. Hvernig blasir það við dómstólum, við dómendum í þessu máli, eftir umræðurnar hér á þingi þegar fyrir liggur að menn tóku ákvörðun í þingflokki sem ein heild, pólitíska ákvörðun, (MÁ: Ekki …) eða þegar einstaka þingmenn sem áður studdu málið segja að þetta hafi verið glapræði? (MÁ: En ekki Sjálfstæðisflokkurinn?) Enginn þingmaður sem áður var á móti málshöfðun hefur nú stigið fram og sagt: Ja, ég hef skipt um skoðun. Enginn. Allt þetta verður auðvitað tekið með þegar málsmeðferðin fer fram, ef það gerist sem ég vona auðvitað ekki, og dregur úr trúverðugleika málshöfðunarinnar, þess á hvaða grundvelli ákæran er lögð fram. Samanlagt gerir þetta, bæði það sem ég hef hér rakið og reyndar allt það sem hv. þingmaður sagði í andsvari sínu, ekki annað en að draga fram hvers konar ótrúleg (Forseti hringir.) afglöp það voru að leggja af stað í þessa svaðilför.