140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:33]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður nefndi einkum tvær ástæður fyrir því að við ættum að taka þetta mál upp aftur. Annars vegar voru það ný viðhorf í Icesave-málinu og hins vegar það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði í Kastljósi, að mestu skipti að nokkrir þingmenn hafi skipt um skoðun. Það skipti mestu fyrir hv. þm. Bjarna Benediktsson. Hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni er það tvennt sem skiptir mestu máli, annars vegar þetta og hins vegar Icesave.

Úr því að þingið getur að mati þingmannsins tekið þetta mál upp aftur og fellt úr gildi með einhverjum hætti þá málsókn sem nú stendur yfir gæti þingið líka tekið málið aftur fyrir eftir hálfan mánuð eða þrjá mánuði og hafið málsóknina að nýju, eða er þingmaðurinn ósammála því? Þannig er það.

Setjum svo að dómur félli í Icesave-málinu okkur í óhag og sýndi að hvað sem líður umsögnum bæði hérlendis og erlendis hafi stjórnvöld á sínum tíma farið mjög óvarlega og unnið gegn hagsmunum þjóðarinnar, sem ég tel raunar hafa verið, ég skal ræða það við þingmanninn síðar, er þá ekki full ástæða til að taka málið upp enn einu sinni vegna þess að nokkrir þingmenn hafi skipt um skoðun eða vegna þess að varaþingmenn hafi komið inn? Segjum að þingflokkur hyrfi og inn kæmu varaþingmenn fyrir hann, segjum að það yrðu kosningar, er það þá ekki eðlilegt framhald af röksemdafærslu hv. þingmanns og félaga hans hér í þinginu að þetta gæti orðið? Það vil ég gjarnan vita og bið þingmanninn að meta það með mér. Hvorugur okkar er lögfræðimenntaður, en þetta sýnist mér af mínu málfræðingsviti að hljóti að vera rökleg niðurstaða.